Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skólahald á Þórshöfn fellt niður vegna smita

08.02.2022 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Grunnskólinn á Þórshöfn var lokaður í dag vegna fjölda covid smita í samfélaginu. Þetta er í fyrsta skipti sem skólanum er lokað vegna faraldursins og óvíst hvort hann verði opnaður næstu daga.

Viðkvæm ef allt lokast

Hilma Steinarsdóttir, skólastjóri grunnskólans á Þórshöfn segir að mörg smit hafi komið upp síðustu daga í bænum. „Það virðist vera að það séu að dreifast út smit hjá okkur, covid-smit og við vildum bara hafa lokað í dag til þess að reyna að hefta útbreiðslu. Þó það sé ekki skylda, þá er þetta þannig samfélag að við erum viðkvæm fyrir því ef allt lokast hér. Við erum ekki með bakvarðarsveit eins og kannski er í stærri samfélögum.“

Skólinn var lokaður í gær vegna veðurs og var ákveðið að hafa hann lokaðan áfram í dag vegna smita. Óvíst er hvort skólinn verður opinn á morgun og næstu daga en það fer eftir því hversu mörg sýni sem tekin voru í morgun greinast jákvæð.

Skólanum lokað í fyrsta skipti vegna smita

Hilma segir ástæðu lokunarinnar í raun ekki vera vegna þess að mikið af starfsfólki eða nemendum séu með veiruna. „Þetta virðist vera laust í samfélaginu. Það eru einhverjir nemendur, en það eru ekki margir nemendur eða ekki mikið af starfsfólki sem er veikt.“

Til þessa hefur Þórshöfn og nágrenni sloppið ágætlega frá veirunni segir Hilma. „Við höfum ekki þurft að loka áður í skólanum, heldur bara farið eftir öllum reglum og eitthvað þurft að hliðra til og minnka hópa. Annars höfum við sloppið mjög vel hérna á Þórshöfn.“