Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Björgunarsveitir sinntu um 100 verkefnum í nótt

07.02.2022 - 05:39
Mynd: RUV / RUV
Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðurnesjum hafa fengið um 100 útköll eða beiðnir um aðstoð. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að enn sé þetta viðráðanlegt. Hann segir að víða á Suðvesturhorninu sé aftakaveður, rok eða jafnvel ofsaveður.

Hávaðarok er nú á suður- og suðvesturlandi og fylgir því ýmist slydda eða snjór. Rauð viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi og veður fer versnandi á norðanverðu landinu líka. Á þriðja hundrað björgunarsveitarfólks hefur verið í viðbragðsstöðu síðustu klukkustundir og hafa þegar þurft að sinna verkefnum í höfuðborginni, á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum. Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður ræddi við þrjá björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu í morgun þau Hjalta Parelius, Andreu Brim Stefánsdóttur og Söndru Birnu Ragnarsdóttur.  

Mynd: RUV / RUV