Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir faraldurinn hafa afhjúpað veikleika Landspítalans

06.02.2022 - 16:17
Mynd: RÚV / RÚV
Kórónuveirufaraldurinn afhjúpaði veikleika Landspítala. Þetta segir nýr forstjóri spítalans. Tækifæri er til að endurskipuleggja starfsemi hans þannig að fjármagn nýtist betur.

Runólfur Pálsson, nýskipaður forstjóri Landspítala, var gestur í Silfrinu í morgun. Þar sagði hann stórar áskoranir blasa við spítalanum:

„Kórónuveirufaraldurinn hefur afhjúpað veikleika á Landspítala og það þarf að takast á við það. Stærstu áskoranirnar eru mikið aðstöðuleysi, mannekla, það er alvarlegur skortur á legurými sem hefur afhjúpast og gert það að verkum að spítalinn hefur ekki svigrúm til að mæta auknum verkefnum sem geta komið upp skyndilega.“

Þessu til viðbótar segir Runólfur að vísindastarfi á spítalanum hafi farið hnignandi. Hann segir að rekstrarerfiðleika spítalans megi rekja mörg ár aftur í tímann:

„Þegar ég horfi til baka man ég varla eftir öðru en það hafi verið sífelld umræða um rekstrarerfiðleika á Landspítala og að honum hafi ekki tekist að halda sig innan ramma fjárveitinga eða fjárlaga.“

Runólfur segir tækifæri til að endurskipuleggja starfsemi spítalans þannig að fjármagn til hans nýtist betur.

„Við getum ekki rekið spítalann í dag fyrir þá fjármuni sem við fáum, svo er ýmislegt sem þarf að lagfæra. Spurningin er hvað kostar að reka þennan spítala í okkar samfélagi miðað við það hlutverk sem hann hefur. Það eru sannarlega sóknarfæri með endurskipulagning innan heilbrigðisþjónustunnar. Við verðum að horfast í augu við þennan vanda og sameiginlega takast á við hann,“ sagði Runólfur Pálsson í Silfrinu í dag.