Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hafa Íslendingar mannslíf á samviskunni?

Mynd: ushmm.org / ushmm.org

Hafa Íslendingar mannslíf á samviskunni?

06.02.2022 - 09:00

Höfundar

Salinger-fjölskyldan frá Berlín, Erich, Gertrud og Steffi sem er átta ára gömul, vilja koma til Íslands. „Í ljósi þess að yfirvofandi brottflutningur okkar er knúinn af brýnni nauðsyn, bið ég yður að svara eins fljótt og auðið er,” skrifar Erich þann 5. desember 1938. Svarið er krotað efst á bréfið. „Nei” með rauðum penna. Salinger-fjölskyldan var myrt í Auschwitz.

Árið 1994 átti fornleifafræðingurinn Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson í ritdeilum í Morgunblaðinu við mann sem dró tölur yfir voðaverk nasista í seinni heimsstyrjöldinni í efa. Svarbréf Vilhjálms var skrifað í nokkuð kaldhæðnislegum tón og bar til dæmis yfirskriftina: Hvað eru nokkrir gyðingar á milli vina?

„Við getum ekki boðið fjölskyldunni Judensleben, Aub, Joas, Weichberger, Bergner, Caro eða Reizenstein og fjölda annarra til að koma og segja okkur frá reynslu sinni í Auschwitz, Treblinka eða Sobibor,” skrifaði Vilhjálmur. „Þessar fjölskyldur, ásamt mörgum öðrum reyndu að komast til Íslands en fengu ekki inni.“

Ekki er ljóst af textanum hvort nöfnin sem Vilhjálmur telur upp sé nöfn raunverulegs fólks eða hvort Vilhjálmur hafi gefið sér skáldaleyfi til að undirstrika skilaboðin. En hitt er deginum sannara að nokkur hundruð gyðingar og pólitískir flóttamenn sóttu um landvistarleyfi á Íslandi við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar en var nær undantekningarlaust hafnað. Því spurði Vilhjálmur: „Er það ekki siðferðileg brenglun að sætta sig við morð, eitt eða fleiri, og tala um þau sem andlát? Höfum við Íslendingar mannslíf á samviskunni?”

Dómsmálaráðherra sagði nei

Þessi spurning og merking hennar er miðpunktur örseríunnar Á samviskunni, sem upprunalega var flutt í Lestinni á Rás 1 fyrir jól en er nú aðgengileg í hlaðvarpi. Í fyrsta þættinum var rætt við listamanninn Erik DeLuca sem setti upp verkið Homeland í Kling og Bang í september. Verkið byggði Erik á yfir 2000 skjölum frá árunum 1935 til 1941 úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem sýna meðferð innflytjendamála í aðdraganda og upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Fjölmörg skjalanna eru eins konar umsóknarbréf.

„Til að gera langa sögu stutta þá sóttu gyðingar um hæli og dómsmálaráðherra [Hermann Jónasson] sagði nei,“ segir Erik. „Þú getur lesið þessi bréf og séð að efst í hægra horninu stendur: Nei.”

Erik fékk aðgang að og myndaði skjölin á Þjóðskjalasafninu, þýddi þau með hjálp tónlistarmannsins Julius Pollux Rothlaender og setti upp í stafrænan gagnagrunn. 

„Það voru augnablik í þýðingarvinnunni þar sem við þurftum bara að hætta, því það var of sársaukafullt að halda áfram,“ segir Erik. „Á sama tíma og við fundum þennan sársauka vorum við að snerta söguna.“

Orsakir, afleiðingar, ábyrgð

Erik og Julius eyddu löngum stundum á Þjóðskjalasafninu þar sem þeir mynduðu öll gögnin. Julius tekur undir að það hafi verið erfið reynsla. „Að sjá pappírinn sem fólk var að skrifa á, á þessum tíma… Mér fannst ég vera mjög nálægur þessum manneskjum og þeirra sögum og örlögum.”  

Julius er þýskur. Saga helfararinnar stendur honum þannig örlítið nær en meðal-Íslendingnum. Hugmyndir um orsakir, afleiðingar og ábyrgð voru hluti af menntun hans frá barnæsku en svo mætast báðar hliðarnar í blóði hans: þolendur og gerendur.

„Langafi minn er gyðingur. Það er pabba megin en hins vegar var afi minn mömmu megin hermaður með nasistunum. Þannig að það er partur af minni fjölskyldu að hugsa um þetta og vilja læra meira um það sem gerðist,“ segir Julius og vitnar í þýska heimspekinginn Theodor W. Adorno. „Að allt héðan í frá þurfi að vera liður í því að koma í veg fyrir að Auschwitz gerist aftur. Það er eitthvað sem ég lærði í skólanum og hefur alltaf haft mikil áhrif á mig. “  

En hvað læra Íslendingar í skóla? Í kennslubókum um seinna stríð er vissulega talað um helförina, gerendur og þolendur en vissulega var þriðja hliðin til staðar: Hlið þeirra sem stóðu hjá.

Samkvæmt bók Snorra G. Bergssonar, Erlendur landshornalýður - Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853-1940, sóttu samtals 406 gyðingar um landvistarleyfi á Íslandi á árunum 1935 til 1940. Þar er ótalin ein umsókn fyrir 130 manna hóp ónafngreindra tékkneskra gyðinga árið 1939 og svo allir þeir sem kunna að hafa nálgast ræðismenn Íslands erlendis, en var vísað frá.

Alls var 16 gyðingum vísað úr landi milli 1936 og 1939. 11 aðrar brottvísanir komust á blað en aldrei til framkvæmdar.

Pása til að gráta

Í fyrsta þætti örseríunnar eru sagðar sögur fólks sem sótti um að koma til Íslands en fékk neitun og var myrt af nasistum. Þeirra á meðal var Salinger-fjölskyldan sem sagt er frá hér að ofan en einnig má nefna:

  • Hjónin ungu Fritz og Betty Meyer sem sendu fjölmörg meðmælabréf til að sanna að þau yrðu Íslandi góðir, vinnandi þegnar.
     
  • Rudolf Pollak sem vildi lifa hófsömu lífi eins og hann þekkti úr íslenskum bókmenntum, ásamt konu sinni og tveimur dætrum, 12 og 14 ára.
     
  • Telmar Toller 27 ára, Paulu 25 ára og Denny fjögurra vikna.

Dæmin eru mun fleiri. Julius notaðist við gagnagrunna um fórnarlömb helfararinnar til að leita uppi nöfnin sem hann fann í skjölunum en fann einnig nokkra einstaklinga sem komust úr landi. Eftir standa fjölmörg nöfn sem ekki tókst að rekja en hægt er að halda í vonina um að hafi, þrátt fyrir allt, lifað af.

„Ég man mjög vel eftir að hafa oft þurft að taka pásu og gráta mjög mikið eftir að hafa séð bréf; fundist ég vera að kynnast sögu einhverrar fjölskyldu, sjá svarið og svo leita lengra og sjá hvað varð um hana,“ segir Julius.

„Mér fannst svo erfitt að sjá hversu nálægt þau voru björguninni, og það að einhver skrifi „neita“ á bréf, í staðinn fyrir „Já, veriði velkomin“ (...) það hefði svo auðveldlega verið hægt að breyta einhverju og forða því að þau þyrftu að deyja.“ 

Ef við hunsum fortíðina munum við endurtaka mistök hennar, segir Julius og honum þykir íslenska ríkið endurtaka sama mynstrið við móttöku og höfnun flóttafólks í samtímanum. 

„Þú horfir bara á eitthvað bréf og sérð nöfn þeirra og orð þeirra þegar þau segja frá þeirra aðstæðum. Af hverju er ekki hægt að hlusta á þau og mæta þeim sem manneskjum?“

Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.