Árið 1994 átti fornleifafræðingurinn Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson í ritdeilum í Morgunblaðinu við mann sem dró tölur yfir voðaverk nasista í seinni heimsstyrjöldinni í efa. Svarbréf Vilhjálms var skrifað í nokkuð kaldhæðnislegum tón og bar til dæmis yfirskriftina: Hvað eru nokkrir gyðingar á milli vina?
„Við getum ekki boðið fjölskyldunni Judensleben, Aub, Joas, Weichberger, Bergner, Caro eða Reizenstein og fjölda annarra til að koma og segja okkur frá reynslu sinni í Auschwitz, Treblinka eða Sobibor,” skrifaði Vilhjálmur. „Þessar fjölskyldur, ásamt mörgum öðrum reyndu að komast til Íslands en fengu ekki inni.“
Ekki er ljóst af textanum hvort nöfnin sem Vilhjálmur telur upp sé nöfn raunverulegs fólks eða hvort Vilhjálmur hafi gefið sér skáldaleyfi til að undirstrika skilaboðin. En hitt er deginum sannara að nokkur hundruð gyðingar og pólitískir flóttamenn sóttu um landvistarleyfi á Íslandi við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar en var nær undantekningarlaust hafnað. Því spurði Vilhjálmur: „Er það ekki siðferðileg brenglun að sætta sig við morð, eitt eða fleiri, og tala um þau sem andlát? Höfum við Íslendingar mannslíf á samviskunni?”