Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sjálfvirkur kafbátur notaður við leit í Þingvallavatni

05.02.2022 - 20:23
Sjálfvirkur kafbátur sem notaður var við leitina að flugvélinni er íslensk hönnun. Hann nýtir sónartækni og getur skannað um einn ferkílómetra á tveimur klukkustundum. Kafbáturinn sigldi alls 36 kílómetra á sex klukkustundum. 

Það var vandasamt verk að fínkemba Þingvallavatn í leitinni að flugvélinni. Þar er talsvert dýpi og íshröngl kom í veg fyrir að hægt væri að sigla bátum um allt vatnið.  Þá var leitað til fyrirtækisins Teledyne Gavia í Kópavogi sem hannar og framleiðir sjálfvirka hátæknikafbáta sem nýtast í leitarstaf. Báturinn Gavia, eða himbrimi, fann vélina á um fimmtíu metra dýpi, nokkur hundruð metrum frá bakka vatnsins. Hann sigldi alls 36 kílómetra á sex klukkustundum. 

„Staðsetningarbúnaðurinn sér um að halda honum á rétta róli, eftir þeim ferlum sem er búið að forrita hann til að fara. Í þessu tilfelli þá erum við með hliðarsónar sem er þeim eiginleikum gæddur að hann nær að minnsta kosti 100 metra fjarlægð í hvora átt svo við náum að skoða mjög stórt svæði á skömmum tíma,“ segir Eyjólfur Ari Bjarnason, tæknimaður hjá Teledyne Gavia.

Þegar báturinn hefur skannað svæðið eru gögnin úr honum sótt og á meðan þau eru yfirfarin er hann sendur út til að skanna næsta svæði. 

„Ef við finnum eitthvað sem vekur athygli til að skoða nánar þá búum við til ný mission fyrir hann og þegar hann kemur úr því sem hann var að gera þá sendum við hann af stað til að rannsaka nánar,“ segir Eyjólfur Ari.

 

Kafbáturinn kemst niður á 1000 metra dýpi. Fremst á honum er myndavél, fimm megapixla-vél. Þá er í honum rafhlaða sem dugir í að minnsta kosti fimm klukkutíma í neðansjávarverkefni í einu. Það er hægt að skipta henni út fyrir aðra fullhlaðna. Í bátnum er neðansjávarstaðsetningareining til að halda bátnum á réttu róli neðansjávar. Á bátnum er líka hliðarsónar og undir honum er flass fyrir myndavélina. Á bátnum er mjög langdrægur hliðarsónar, sem notaður var við skönnun í Þingvallavatni í gær. Þannig var unnt að skanna stórt svæði á skömmum tíma.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV