Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Flugvélin fundin

05.02.2022 - 01:28
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Flugvélin sem leitað hefur verið síðan á fimmtudag er fundin. Þetta kemur fram í tilkynningu og á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar. Þar segir að vélin hafi fundist í Ölfusvatnsvít í sunnanverðu Þingvallavatni á ellefta tímanum í kvöld, með fjarstýrðum kafbát. Rannsókn slyssins og næstu skref eru í höndum lögreglunnar á Suðurlandi.

Rúmlega þúsund manns tóku þátt í leitinni að vélinni á föstudag, segir í færslu gæslunnar, þar á meðal á níunda hundrað björgunarsveitafólks frá Landsbjörgu, þyrlu- og séraðgerðarsveitir Landhelgisgæslunnar, lögregla, almannavarnadeild ríkislögeglustjóra, sérsveit ríkislögreglustjóra, starfsfólk Isavia, einkaaðilar og fjöldi annarra.

Færir Landhelgisgæslan þeim öllum þakkir fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf við krefjandi aðstæður.