Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Svandís segir fátt rökstyðja hvalveiðar

04.02.2022 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fátt styður áframhaldandi hvalveiðar eftir að núverandi veiðiheimildir renna út og sýna þarf fram á efnahagslega réttlætingu fyrir þeim. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Meta á áhrif þess að hætta hvalveiðum alfarið.

Þetta segir Svandís í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir hún að það sé óumdeilt að veiðarnar hafi haft litla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðarbúið síðustu árin. „Síðustu þrjú ár hafa engin stórhveli verið veidd, en ein hrefna var veidd árið 2021,“ skrifar ráðherra. 

Hún segir að þau fyrirtæki, sem hafi til þess leyfi, hafi getað veitt hval síðustu ár en ekki gert það. Fyrir því gætu verið ýmsar ástæður, en einfaldasta skýringin sé að viðvarandi tap sé líklega af veiðunum.

Í greininni skrifar Svandís að núverandi hvalveiðiheimildir gildi út næsta ár og að öllu óbreyttu verði engin hvalveiði heimil frá árinu 2024.

„Sýna þarf fram á að það sé efnahagslega réttlætanlegt að endurnýja hvalveiðiheimildir. Í sögulegu samhengi hafa þessar veiðar haft neikvæð áhrif á útflutningshagsmuni landsins,“ segir í greininni.

Þar segir að Japanir, sem hafi verið stærstu kaupendur hvalkjöts, kaupi nú minna af því vegna breyttra neysluvenja og þeir veiði nú sjálfir hvali í eigin lögsögu. 

„Að öllu óbreyttu er því fátt sem rökstyður það að heimila hvalveiðar eftir árið 2024. Á þessu ári verður unnuð mat á mögulegum þjóðhagslegum og samfélagslegum áhrifum slíkrar ákvörðunar,“ segir í niðurlagi greinarinnar.