Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stoltenberg verður seðlabankastjóri Noregs

04.02.2022 - 11:00
epa09561468 NATO Secretary General Jens Stoltenberg gives a press conference with the Danish Prime Minister Mette Frederiksen (not in picture) at Christiansborg Castle during the 73rd Nordic Council at the Prime Ministers Office in Copenhagen, Denmark, 03 November 2021.  EPA-EFE/MADS CLAUS RASMUSSEN  DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins verður næsti Seðlabankastjór Noregs. Hann lætur af störfum hjá NATÓ í október næstkomandi en þangað til stýrir Ida Wolden Bache núverandi aðstoðarseðlabankastjóri bankanum. Hún var helsti keppinautur Stoltenbergs um stöðuna.

Þetta kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins en það er nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins sem skipar seðlabankastjóra. Alls sóttu 22 um stöðuna eftir að Øystein Olsen tilkynnti í ágúst að hann hygðist láta af störfum aldurs vegna nú í febrúar.

Stoltenberg verður fyrstur seðlabankastjóra frá árinu 1990 til að eiga bakgrunn í stjórnmálum og sá fyrsti sem var áður forsætisráðherra. Hann er með háskólagráðu í hagfræði en hefur ekki reynslu af bankastarfsemi.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar og margir hagfræðingar vöruðu við því sjálfstæði bankans kynni að verða teflt í tvísýnu yrði atvinnustjórnmálamaður fyrir valinu. 

Þingmenn stjórnarandstöðunnar brugðust hart við þegar niðurstaðan lá fyrir. Þau segja valið misráðið einkum í ljósi stjórnmálasögu Stoltenbergs og náinna tengsla hans við Jonas Gahr Støre núverandi forsætisráðherra. 

Trygve Slagsvold Vedum fjármálaráðherra segir í yfirlýsingu að hann telji Stoltenberg vera vænlegasta kostinn í ljósi þekkingar hans á efnahagsmálum, skilnings á samfélagsmálum og viðameiri stjórnunarreynslu en flestir Norðmenn.

Stoltenberg var forsætisráðherra Noregs á árunum 2005 til 2013 og var gerður að framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins árið eftir.

Hann lætur af störfum sem framkvæmdastjóri NATÓ 1. október en ekki liggur fyrir hvenær hann tekur við stjórn bankans. Þangað til stýrir Ida Wolden Bache bankanum en lokavalið stóð milli þeirra tveggja. 

Bache er með doktorspróf í hagfræði og hefur starfað við bankann nánast óslitið frá árinu 1998. Hún hefur meðal annars farið fyrir peningastefnunefnd bankans og stöðugleikanefnd. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV