Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fjölmiðlar fengu minni auglýsingatekjur

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla drógust saman um 16% árið 2020 miðað við árið á undan og hátt í fjórar af hverjum tíu krónum sem varið var til auglýsinga í fjölmiðlum runnu til erlendra aðila, sem er lægra hlutfall en árin á undan.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands.

Þar er þessi samdráttur rakinn til kórónuveirufaraldursins. Samanlagðar tekjur íslenskra fjölmiðla voru rúmlega 25 milljarðar króna. Frá árinu 2015 hafa þær rýrnað um 4% og tekjur af auglýsingum og kostun hafa dregist saman um fjórðung á sama tíma, en notendatekjur eins og til dæmis áskriftir, hafa vaxið um 14%. 

Fimm stærstu fjölmiðlafyrirtækin tóku til sín 89% af samanlögðum tekjum fjölmiðla þetta árið og þar var Ríkisútvarpið stærst, sem fékk um fjórðung tekna fjölmiðlanna árið 2020, þar af um þriðjungur notendagjalda og 17% auglýsingatekna.

Tekjuþróun hefur verið mismunandi eftir gerð fjölmiðla. Þannig hafa prentmiðlar búið við umtalsverðan tekjusamdrátt frá árinu 2015 sem nemur 30%. Tekjur annarra miðla hafa ýmist hækkað eða staðið í stað.