Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Af líkama og sál

Föstudaginn 28. janúar gaf Friðrik Dór út plötuna Dætur.
 Mynd: Alda Music

Af líkama og sál

04.02.2022 - 12:30

Höfundar

Þroskaður Friðrik Dór birtist hlustendum á plötu vikunnar sem nefnist Dætur og kom út á föstudaginn. Annar bragur er á Dætrum en fyrri plötum hans, fágaðri og laus við grallaraskap ungs manns. Arnar Eggert Thoroddsen er hrifinn.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Merkilegt að tvær helstu poppstjörnur landsins í dag af kyni karla séu bræður. Fyrir stuttu skrifaði ég um plötu Jóns Jónssonar sem inniheldur áhlýðilegt popp með stóru P-i og núna er að ég setja niður orð um bróður hans, Friðrik Dór eða Frikka Dór, sem hefur verið með helstu poppstjörnum okkar undanfarin ár.

Merkilegt frá því að segja að þrátt fyrir miklar vinsældir Friðriks Dórs eru tíu ár síðan hljóðversplatan Vélrænn kom út. Hér teljum við ekki Segir ekki neitt frá 2018 sem var safn smáskífna ef svo má segja og svo kom út tónleikaplata 2020. Fyrsta breiðskífan, Allt sem þú átt, kom út 2010. Mig rak í rogastans er ég fann dóm sem ég skrifaði um hana í Moggann á sínum tíma. Gaf henni fjóra og hálfa stjörnu og lét þessa gullmola m.a. falla: „Ég er að reyna að átta mig á þeim öflum sem valda því að ég fíla þessa plötu Friðriks Dórs í ræmur. Örvænting manns á fertugsaldri sem vill fylgjast með? (nei!). Naskt skynbragð Friðriks á hvað virkar og hvað virkar ekki í alvöru poppi (mjög líklega)“. Svo kemur þessi setning hér og ég fæ eiginlega roða í kinnar þegar ég les þetta. En læt hana samt flakka: „Ég tek ofan fyrir Friðriki Dór fyrir að gefa út útúrtanað, hnakkavænt gæða „ruslpopp“ sem er auk þess „átótjúnað“ í drasl. Án þess að blikna. Það er ekki vottur af kaldhæðni í gangi hérna, og það svínvirkar.“

Þessi setning er ansi óhefluð, dólgsleg jafnvel, en hún lýri kostum bræðranna engu að síður ágætlega. Að gera skammlaust popp, af metnaði og innsæi.

Dætur er nákvæmlega þannig. Það örlar, eðlilega, á fullorðinsbrag hérna enda Friðrik Dór þriggja barna faðir og plötutitillinn væntanlega vísun í slíkt. Þroskað popp og fágað fremur en galsi og grallaraskapur. Platan er til þess að gera stutt, níu laga og innan við hálftíma löng (29 mínútur) eins og mörg þrekvirkin (Reign in Blood, Pink Moon o.s.frv.). Þeir Magnús Jóhann Ragnarsson, Arnar Ingi Ingason, Pálmi Ragnar Ásgeirsson, Ásgeir Orri Ásgeirsson og Þormóður Eiríksson koma að upptökustjórn og lagasamningu ásamt Friðriki.

Leikar hefjast á laginu Týpan, sem er inngangslag í millitempói og textinn skemmtilegur. Einhvers konar ástarsaga listatýpu og „bols“ sem „spilar bara með og hristir hausinn í laumi“. Friðrik semur textann og gerir vel og er giska fær í því ylhýra. Lagið? Léttleikandi, tölvuvænt popp með hvítu sálarfönki yfir og þessi einkennandi hái tenór Friðriks bindur svo allt saman. „Bleikur og blár“ kemur strax á eftir og er vel heppnað. Fallegt lag og „inn í sig“, söngurinn löngunarfullur og það rúllar glæst og örugglega áfram. Ballöður eins og „Örmagna“ og „Þú“ eru flottar, þyngsli án afsláttar í þeirri fyrrnefndu, hið síðara „eðlilegra“ en hvassir og kuldalegir taktar gera það móðins. Ekki gengur allt saman upp. „Hvílíkur dagur“ er t.d. hálfgert frákast. En þegar allt er saman tekið er þetta stöndugasta verk. Ég veit að það var lagt upp með að gera heildstætt verk með rauðum þræði í lagasmíðum og einkennandi áru yfir og það tekst meira og minna.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Í gotneskri sveiflu

Tónlist

Enginn óviti

Pistlar

Meira pönk, meiri hamingju!

Pistlar

Silkimjúkir slagarar