Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Úttekt sýnir einelti og kvenfyrirlitningu hjá Eflingu

Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrrverandi formaður Eflingar segir starfsfólk skrifstofu félagsins hafa verið á ofurlaunum og að það hafi breytt verkalýðshreyfingunni í sjálftökumaskínu.   Varaformaður félagsins segir það fjarri lagi. Ný úttekt sýnir að einelti og kvenfyrirlitning viðgekkst á skrifstofu Eflingar.

Úttektin var gerð af sálfræði- og ráðgjafarstofunni Líf og sál í nóvember og desember í fyrra og sýnir að vinnuumhverfið á skrifstofu Eflingar einkenndist meðal annars af kvenfyrirlitningu og einelti gagnvart starfsfólki á skrifstofu Eflingar. Hún er byggð á viðtölum við allt starfsfólk skrifstofunnar og var kynnt starfsfólki á fundi í morgun.

Að sögn Lindu Drafnar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Eflingar, komu niðurstöðurnar ekki á óvart. Þær hafi staðfest upplifun fólks af starfsumhverfinu á skrifstofunni.  Yfirlýsingar er að vænta frá Eflingu um niðurstöður úttektarinnar.

Efling tók saman kostnað við ýmis starfsmannamál félagsins í stjórnartíð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formanns félagsins, að beiðni Guðmundar Baldurssonar stjórnarmanns í félaginu.  Greint var frá samantektinni í fréttum í gær og þar kom meðal annars fram að kostnaðurinn hefði verið hátt í 130 milljónir, meðal annars vegna uppsagna, starfslokasamninga og langtímaveikinda. 

Segir fríðindi hálaunastarfsfólks hafa vakið furðu sína

Sólveig Anna vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, en í færslu á facebook-síðu sinni segir hún að kostnaður við starfsmannahald á skrifstofu Eflingar hafi verið mikill; fríðindi starfsfólks hafi vakið furðu sína er hún hóf þar störf og segir að það hafi verið hálaunafólk sem hafi breytt verkalýðshreyfingunni í sjálftökumaskínu.

Hún tiltekur þar ókeypis veislumat daglega, dýrar utanlandsferðir og tíðar og kostnaðarsamar samkomur á vinnutíma. 

Bæði Sólveig og Guðmundur eru í framboði til formennsku í félaginu og það er einnig Ólöf Helga Adolfsdóttir varaformaður Eflingar. Hún segist ekki kannast við þau starfskjör sem formaðurinn fyrrverandi lýsir.

„Ég er mjög ósammála því að þetta sé eitthvað sjálftökufólk eða eitthvað svoleiðis, enda tel ég Sólveigu Önnu hafa verið í stöðu til að breyta þessu í þessi 4 ár sem hún var formaður Eflingar, ef hún var svona óánægð með þetta,“ segir Ólöf Helga.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir