Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Almennir borgarar féllu í sókn bandamanna að íslamistum

03.02.2022 - 06:26
epa09716595 Syrian people displaced due to the security operations against the Islamic State (IS) group carry belongings as they return to their house at a district in Hasaka, northeastern of Syria, 29 January 2022. The US-backed Syria Democratic Forces (SDF) announced that they had retaken full control of Ghwayran prison in the city of Hasaka and re-arrested dozens of jihadists holed up in the prison and in nearby houses, after a major jailbreak attempt from the so-called Islamic State group (IS or ISIS) militants.  EPA-EFE/AHMED MARDNLI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nokkur fjöldi almennra borgara fórst þegar hersveitir undir forystu Bandaríkjahers réðust inn í bæinn Atmeh í Idlib-héraði í norðaverðu Sýrlandi aðfaranótt miðvikudags, í leit að eftirlýstum leiðtoga uppreisnarsveita íslamista. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir bæjarbúum og heimildarmönnum í röðum uppreisnarsveitanna, sem berjast gegn stjórn Assads Sýrlandsforseta og eru sagðar tengjast al-Kaída.

Haft er eftir einum íbúa í Atmeh að minnst tólf almennir borgarar hafi farist í aðgerðum árásarliðsins í bænum, sem réðust til atlögu um miðnæturbil.

Áköf skothríð í langan tíma bendir til harðrar mótspyrnu

Atmeh er á þéttbýlu svæði í Idlib, nærri tyrknesku landamærunum, þar sem þúsundir sýrlenskra flóttamanna hafast við í tjaldbúðum og yfirfullum húskofum, segir í frétt AFP. Þar segir enn fremur að engar fregnir hafi borist af föllnum íslamistum enn sem komið er, en að íbúar hafi heyrt ákafa skothríð á meðan á aðgerðunum stóð, sem bendi til þess að árásarliðið hafi mætt töluverðri mótspyrnu. 

Hvorki bandaríska utanríkisráðuneytið né talsmaður hernaðarbandalagsins í norðanverðu Sýrlandi hafa svarað fyrirspurnum AFP um árásina.

Umfengsmesta aðgerðin frá sókninni að al-Baghdadi

Rætt er við Charles Lister, sérfræðing við Miðausturlandastofnunina í Washington. Hann hefur eftir íbúum í Atmeh að aðgerðirnar hafi staðið í ríflega tvær klukkustundir og að allar lýsingar heimamanna bendi til þess að árásarliðið hafi ætlað sér að ná leiðtoga íslamistanna á sitt vald, og það frekar lifandi en látnum.

Lister virðist þetta vera umfangsmesta hernaðaraðgerð af þessu tagi síðan ráðist var gegn Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga Íslamska ríkisins, í Sýrlandi norðvestanverðu árið 2019. al-Baghdadi féll í þeirri árás.