Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Starfsmannamál kostuðu Eflingu um 130 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd:
Kostnaður Eflingar vegna ýmissa starfsmannamála í þriggja ára formannstíð Sólveigar Önnu Jónsdóttur var hátt í 130 milljónir króna. 80% starfsmanna félagsins létu af störfum á meðan hún var formaður. Sólveig Anna er ein þriggja sem nú sækist eftir formennsku í félaginu.

Samkvæmt samantekt sem unnin var af Eflingu og fréttastofa hefur undir höndum létu fjörutíu af fimmtíu starfsmönnum skrifstofunnar af störfum í stjórnartíð Sólveigar Önnu. Efling greiddi rúmar 14 milljónir í starfslokasamninga og greiddar voru um 66 milljónir vegna launa á uppsagnarfresti, sem fólk þurfti ekki að vinna. 

Þá var kostnaður félagsins vegna langtímaveikinda rúmar 48 milljónir.
Samtals eru þetta rúmar 128 milljónir á þessu tímabili. Þá er ótalinn ýmiss kostnaður vegna þjónustu sálfræðinga og annarra sérfræðinga.

Sólveig Anna var kjörin formaður Eflingar árið 2018 og endurkjörin tveimur árum síðar. Hún sagði af sér í nóvember í fyrra og sagði þá að starfsfólk Eflingar hefði ofsótt sig og hrakið úr starfi eftir að hún og aðrir stjórnendur félagsins höfðu verið gagnrýnd með ýmsum hætti fyrir framkomu sína. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að hluti starfsfólks Eflingar kvíði hugsanlegri endurkomu Sólveigar Önnu.

Sólveig Anna gaf ekki kost á viðtali

Efling er næststærsta stéttarfélag landsins með um 27.000 félagsmenn sem kjósa formann dagana 9. - 15. febrúar. Frestur til að skila inn framboði rann út í morgun. Auk Sólveigar Önnu eru tvö í framboði: Ólöf Helga Adolfsdóttir varaformaður Eflingar og Guðmundur Baldursson sem áður sat í stjórn félagsins á lista Sólveigar Önnu.

Í samtali við fréttastofu sagðist Sólveig Anna ítrekað hafa svarað fyrir formannstíð sína og gaf ekki kost á viðtali vegna málsins.