Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ísland gæti orðið síðast til að aflétta öllu

Sweden's Minister of Finance Magdalena Andersson and party chairman of the Social Democratic Party speaks, during a press conference after her meeting with the Swedish speaker of Parliament, in Stockholm, Thursday, Nov. 11, 2021. (Fredrik Persson/TT News Agency via AP)
 Mynd: AP - TT
Íslensk yfirvöld gætu orðið þau síðustu á Norðurlöndum til að aflétta öllum sóttvarnaaðgerðum. Sænsk stjórnvöld hafa boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem búist er við að tilkynnt verði um miklar afléttingar. Norðmenn afléttu nánast öllu hjá sér í gær og ætla stíga skrefið til fulls um miðjan mánuðinn. Danir hafa þegar aflétt öllu. Finnar stefna á að aflétta öllu í byrjun næsta mánaðar og taka stór skref í átt til venjulegs lífs síðar í þessum mánuði.

Samkvæmt sænskum fjölmiðlum verður öllum aðgerðum aflétt á einni viku og því ættu Svíar að vera lausir undan sóttvarnatakmörkunum í næstu viku.  Áfram verður fólk hvatt til að vera heima ef það finnur fyrir einkennum og þeir sem eru óbólusettir beðnir um að fara varlega.

Norðmenn afléttu flestu hjá sér klukkan 23 í gærkvöld og ætla að stíga skrefið til fulls um miðjan febrúar, nánar tiltekið þann 17. febrúar. „Miðað við það sem við vitum í dag þá er rétt að aflétta flestum sóttvarnaaðgerðum en með nokkrum undantekningum,“ sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, á blaðamannafundi í gær.

Danir riðu á vaðið og afléttu öllu í byrjun vikunnar. Þar í landi er COVID-19 sjúkdómurinn ekki lengur skilgreindur sem samfélagsleg ógn. Danir eru sem fyrr hvattir til að bregðast hratt við og fara í próf verði einkenna vart. 

Færeyingar ætla að aflétta öllu í þremur skrefum og frá 1. mars verða engar takmarkanir.  Frá 1. febrúar máttu barir og veitingastaðir hafa opið eins lengi og þeir vildu. Um miðjan þennan mánuð verða aðeins þeir sem eru smitaðir að fara í sóttkví eða einangrun. 

Ríkisstjórnin á Íslandi kynnti á föstudag afléttingaráætlun í þremur skrefum þar sem til stendur að aflétta öllum aðgerðum þann 14. mars og jafnvel fyrr.  Afléttingaráætlunin hefur verið gagnrýnd nokkuð og ríkisstjórnin sökuð um að stíga full varlega til jarðar. Breytingar voru gerðar í núverandi reglugerð strax í dag þar sem ekki er lengur gerð krafa um 1 metra nándarmörk á sitjandi viðburðum. 

Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í morgun að til greina kæmi að aflétta fyrr.  Hann ætti þó síður von á að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra fyrir ríkisstjórnarfund á föstudag. 

Þrátt fyrir að vel yfir þúsund smit hafi greinst á degi hverjum frá því að omíkron-afbrigðið varð ráðandi voru í morgun 27 sjúklingar á Landspítala með COVID-19.  Sjúklingum á gjörgæsludeild vegna kórónuveirunnar hefur ekki fjölgað í rúma viku. Þeir eru þrír, þar af eru tveir í öndunarvél. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV