Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Málfrelsi veiti ekki leyfi til þess að dreifa bulli

Mynd: Samstett / Samsett

Málfrelsi veiti ekki leyfi til þess að dreifa bulli

01.02.2022 - 16:17

Höfundar

„Ég styð Joni og Young, ég styð vísindasamfélagið og ég styð málábyrgð,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen um ákvörðun Joni Mitchell og Neil Young að taka tónlist sína af Spotify. Hann segir aumt þegar fólk ber fyrir sig málfrelsi þegar það verður uppvíst að því að dreifa röngum og villandi upplýsingum um mikilvæga hluti eins og COVID-19.

Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði og tónlistargagnrýnandi, segir að rök hlaðvarpsstjórnandans Joe Rogan um málfrelsi dugi skammt þegar rangar upplýsingar um kórónuveirufaraldurinn og bólusetningar eru bornar á borð í þáttum hans. Hann segist styðja við bakið á Neil Young og Joni Mitchell, sem hafa tekið tónlist sína út af miðlinum vegna bullsins sem oft vellur upp úr gestum Rogans og Rogan sjálfum jafnvel.  

Eins og kunnugt er gáfu Young og Mitchell nýverið tónlistarrisanum Spotify tvo afarkosti: Að taka hlaðvörp Joe Rogan út af veitunni eða tónlist þeirra sjálfra. Spotify valdi síðari kostinn. Í Morgunútvarpinu í morgun var rætt við Arnar Eggert um málið. 

„Það er hressandi, í rauninni, að sjá hvað Neil Young og Joni Mitchell eru að gera, af því að þetta setur þessi fyrirtæki svolítið undir mælikerfið,“ sagði Arnar Eggert. 

Arnari var tíðrætt um málfrelsi sem hann segist almennt fylgjandi að skuli í hávegum haft. Hann segist þó ekki sætta sig við að menn beri málfrelsi fyrir sig þegar þeir verða uppvísir um að dreifa falsáróðri, sérstaklega ekki þegar allur heimurinn er að hlusta. 

„Sko, málfrelsi er eitt en við skulum tala bara um sannleik og lygi. Mér finnst ekki í lagi að fullorðinn maður, sem er með þetta risa „platform“, milljónir manna að hlusta, gangist við því að það komi fólk þarna inn og ítrekað, trekk í trekk, viðhafi rangfærslur sem er löngu búið að hafna af vísindasamfélaginu.“ 

Rogan hefur gefið út rétt um tæplega tvö þúsund þætti og rætt við álíka marga gesti á sínum tólf ára ferli. Meðal þeirra er Lars Ulrich, trommuleikari þungarokkssveitarinnar Metallica, og eins og Arnar nefnir er vel hægt að gaman af slíku. Steininn taki þó úr þegar misgáfulegir og mismálsmetandi menn eru fengnir til þess að viðra illa ígrundaðar hugmyndir sínar um COVID-19. Spotify gerði um 100 milljón dollara (12,7 milljarða króna) samning við Rogan um útgáfurétt að þáttum hans. Verðmæti tónlistar Young og Mitchell fyrir Spotify er án efa ekki í líkingu við það og því hefur það sennilega verið sorglega einföld ákvörðun fyrir risann að velja Rogan fram yfir Young og Mitchell, þrátt fyrir að efni þeirra tveggja sé talsvert gáfulegra en efni Rogan.  

En það eru fleiri tónlistarveitur sem bjóða upp á tónlist Neil Young og Joni Mitchell og eins má búast við að helstu aðdáendur þeirra eigi tónlistina utan stafræns forms, þ.e. á geisladiskum og plötum. Spurður að því hvort það komi hreinlega við listamenn á borð við Mitchell og Young að detta út af Spotify segir Arnar: 

„Jú, jú, ég meina, það er líka punktur. Við þurfum kannski eiginlega að bíða og sjá hvort það verði einhver dómínó-áhrif með Spotify. En ég vil líka nefna það að mér finnst það svolítið broslegt að núna er fólk að færa sig yfir á Tidal eins og það færi það einhverri siðferðislegri skör ofar en ég til dæmis, sem nota Spotify. En stórfyrirtæki eru stórfyrirtæki og það er hægt að merkja einhvern mun kannski á Spotify og Tidal og Apple Music en fyrir mér er þetta allt í sama graut.“ 

 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Spotify bregst við gagnrýni tónlistarmanna

Stjórnmál

Tónlist Joni Mitchell burt af Spotify vegna hlaðvarps

Stjórnmál

Tónlist Neils Young ekki lengur aðgengileg á Spotify

Menningarefni

Joe Rogan gerir milljarða samning við Spotify