Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Umræða um nýja þjóðarhöll verður enn háværari

31.01.2022 - 21:51
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ráðherra íþróttamála vonast til að á vormánuðunum verði komið á hreint með hvaða hætti ný þjóðarhöll mun rísa, en stýrihópur fer nú yfir málið. Hugmynd um staðsetningu hallarinnar er til umsagnar í skipulagsráði. Alþjóðahandknattleikssambandið þrýstir á úrbætur í höllinni. Upphaflega var höllin hugsuð til tuttugu ára segir formaður HSÍ, síðan eru liðin tæp fjörutíu ár.

Hugmyndir um heilmikla uppbyggingu í Laugardal

Margar tillögur hafa komið fram að heildarskipulagi í Laugardal í Reykjavík í gegnum árin. Nýlega skilaði starfshópur Borginni tillögum um það, þar sem eru nokkrar hugmyndir að nýbyggingum sem eru merktar inn á kortið með rauðu. Fyrir helgi samþykkti borgarráð að vísa þessum hugmyndum til umsagnar í íþrótta- og tómstundaráði og skipulags- og samgönguráði.

„Þarna er tekið saman með hvaða hætti allar þessar fjölmörgu hugmyndir um uppbyggingu af íþróttaaðstöðu gætu komist fyrir í Laugardalnum. Þetta er okkar tilraun út frá skipulagslegu tilliti til að ná utan um það. Þá getum við séð hvernig þjóðarhöllin gæti rúmast, þjóðarleikvangur og æfingaaðstaða barna og ungmenna í hverfinu,“ segir Pawel Bartoszek formaður skipulags- og samgönguráðs.

Kallað hefur verið eftir nýjum þjóðarleikvangi og þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir, sérstaklega eftir gott gengi landsliðsins á Evrópumótinu í handbolta. Samkvæmt skipulagshugmyndum borgarinnar á nýja þjóðarhöllin að rísa á milli Laugardalshallar og Suðurlandsbrautar, og vera samtengd Laugardalshöllinni. „Mér líst bara mjög vel á að þetta er komið á þann stað að menn eru farnir að huga að alvöru að staðsetningu,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.

Tæp fjörutíu ár síðan úrbóta var þörf

Laugardalshöll er barns síns tíma, hún var opnuð 1965. „Hún var hugsuð fyrst og fremst til 20 ára. Þannig að það er kominn tími til að gera eitthvað í málinu,“ segir Guðmundur.

Landsliðin hafa spilað í henni á undanþágu og næsti leikur er í apríl. Guðmundur býst við að fá undanþágu þá líka. Gólfstærðin er ekki nægjanleg, ítrustu kröfur gera ráð fyrir öryggissvæði í kringum völlinn. „Það er langt frá því að við uppfyllum þær kröfur. Það er verið að þrýsta á okkur að fá svör um það hvenær við förum í þessar úrbætur og ég vona að við getum farið að gefa jákvæð svör um það að þetta sé að detta inn.“ Þessi þrýstingur kemur frá Alþjóðahandknattleikssambandinu.

Hvenær skóflustungan verður tekin liggur ekki fyrir

Þrátt fyrir að hugmynd um nýja þjóðarhöll sé fundinn staður hjá starfshópnum liggur fjármögnun ekki fyrir. Borgin er tilbúin að leggja um tvo milljarða í nýja íþróttaaðstöðu en börnin í hverfinu gangi fyrir, segir Pawel. „En ef það ætti að þjóna áhorfendum þá ætti ríkið að taka ríkan þátt í því.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar spurði ráðherra íþróttamála út í stöðu þjóðarhallarinnar í undirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann segir að búið sé að skipa stýrihóp og að hann og borgarstjóri séu sammála um að ræða skiptingu kostnaðar og hönnun mannvirkjanna. „Eðli málsins samkvæmt liggur ekki nákvæmlega fyrir hvenær skóflustungan verður tekin. En aðdragandinn er að styttast og ég bind vonir við að við komumst ansi langt á þessu vormisseri, að geta teiknað upp með hvaða hætti og hvernig við förum í þetta mikilvæga verkefni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV