Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Talibanar sterklega grunaðir um aftökur án dóms og laga

epa09712860 The director of Afghanistan's prisons Muhammad Yusuf Mistaree attend Taliban police graduation ceremony in Kabul, Afghanistan, 27 January 2022. Some 212 Taliban have graduated after a month-long course to be stationed at prison security first and later to other provinces. There are currently 10,000 prisoners in Afghan jails, including 200 women prisoners, 200 children.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna leiðir í ljós að sterkar líkur séu á að Talibanar og samverkamenn þeirra hafi myrt á annað hundrað fyrrverandi ríkisstarfsmenn, liðsmenn öryggissveita afganska ríkisins og fólk sem starfaði fyrir erlend ríki.

Skýrslan sýnir fram á alvarleg mannréttindabrot nýrra stjórnenda í Afganistan. Auk morðanna hafa réttindi kvenna verið fótum troðin og mótmæli þögguð niður í landinu. 

Frá valdatöku Talibana 15. ágúst hafa UNAMA, skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, borist yfir hundrað mjög trúverðugar tilkynningar um að Talibanar hafi myrt fólk, að stærstum hluta án dóms og laga. 

Í skýrslunni segir að það sé í hrópandi mótsögn við loforð nýju valdhafanna um full grið til handa þeim sem störfuðu fyrir fráfarandi ríkisstjórn eða vestræn ríki.

Auk þess þurfi mannréttindafrömuðir og fjölmiðlafólk að þola sífelldar hótanir, árásir, handtökur og illa meðferð og jafnvel séu dæmi um aftökur á því fólki. 

Eins er farið ítarlega í saumana á hvernig friðsamleg mótmæli eru brotin á bak aftur og eins hvernig stúlkum og konum er meinaður aðgangur að menntakerfi landsins. 

Sameinuðu þjóðirnar vara því að yfir helmingur 38 milljóna íbúa Afganistans standi frammi fyrir fæðuskorti og jafnvel hungursneyð. Ríkið var mjög háð erlendri aðstoð fyrir valdatöku Talibana og nú er atvinnuleysi gríðarlegt.

Opinberir starfsmenn hafa ekki fengið laun sín greidd svo mánuðum skiptir. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir í skýrslunni að í raun sé slökkt á öllum kerfum innanlands.

Í síðasta mánuði samþykkti öryggisráðið tillögu Bandaríkjamanna að aðstoð við Afgana sem ekki færi í bága við alþjóðlegar refsiaðgerðir sem ákveðnar voru strax eftir valdatöku Talibana.