Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir mikilvægt að vera í samræmi við önnur lönd

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, segir mikilvægt að samræma reglur á landamærunum við reglur annars staðar. „Þannig að þegar fólk er að bóka fríið sitt þá sé ekki of mikill munur á því sem er hér og því sem er erlendis,“ segir Lilja.

Ákveðinn munur er nú á reglum við landamærin hér á landi og annars staðar. Lilja segir mjög mikilvægt að við séum samkeppnishæf. „Við sjáum að faraldurinn er í rénun og ég vonast til þess að við verðum komin á svipaðan stað og önnur ríki.“

Lilja segir endurskoðun á sóttvarnarreglum við landamærin væntanleg á næstunni. Hún leggur mikla áherslu á fyrirsjáanleika, svo ferðaþjónustan geti tekið við sér. Hún sé sú atvinnugrein sem skapi mestar tekjur fyrir þjóðarbúið. Aðspurð hvort hún sé að kalla eftir léttingu á takmörkunum við landamærin segir Lilja: „Mér finnst bara mjög mikilvægt að við séum ábyrg, en auðvitað um leið þurfum við að huga að því hvernig við erum í samanburði við önnur ríki“.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV