Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Illviðri hefur kostað fjölda mannslífa í Brasilíu

31.01.2022 - 01:50
epa09714484 Several tents are installed where people live in street condition, in Sao Paulo, Brazil, 27 January 2022 (issued 28 January 2022). Since losing his job three years ago, Edson Veloso has been wandering the streets and surviving mostly on the generosity of the inhabitants of Sao Paulo, Brazil's richest city which has seen the number of homeless people skyrocket by 31 percent during the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/FERNANDO BIZERRA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Tugir hafa farist af völdum fárviðris sem gekk yfir Brasilíu um helgina. Að minnsta kosti átján létust í Sao Paulo-fylki einu. Frá því að regntímabilið hófst í október hefur iðulega skapast mikill vandi af völdum veðurs í landinu.

Úrhellisrigning olli flóðum og aurskriðum víðsvegar um Sao Paulo sem er það fjölmennasta fylkið í Brasilíu. Þar búa um 46 milljónir manna. Óveður kostaði einnig 24 mannslíf í Bahia-fylki og 19 í Minas Gerais í suðausturhluta landsins. Þúsundir eru á hrakhólum vegna veðursins.

Í yfirlýsingu frá fylkisstjórninni í Sao Paulo segir að sjö þeirra látnu séu á barnsaldri og að minnsta kosti fimm hundruð heimili hafi eyðilagst í hamförunum.

Joao Doria fylkisstjóri heitir jafnvirði 350 milljóna íslenskra króna til hjálparstarfs í þeim tíu borgum og 645 héruðum sem verst urðu úti. Ellefu fórust í dag þegar aurskriður féllu á hús í borgum í miðhluta fylkisins.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að fimm sé enn saknað og að níu hafi slasast í óveðrinu. Þrátt fyrir að mikið hafi rignt í Sao Paulo-borg, þar sem búa tólf milljónir manna, hafa ekki borist fréttir af alvarlegum óhöppum þar. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV