Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Við viljum metrann burt“

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið
Borgaleikhússtjóri segir það verða erfitt og flókið að halda úti stórum sýningum leikhúsanna þrátt fyrir tilslakanir á samkomutakmörkunum. Eins metra reglan gangi einfaldlega ekki upp.

Þótt búið sé að fella niður hraðpróf og leyfa fimm hundruð manns í hólfi í sal  er kvöð í nýjum reglum um sóttvarnir sem er leikhúsum mjög erfið að sögn Brynhildar Guðjónsdóttur Borgarleikhússtjóra. Sýningar hefjast á minni sviðum í vikunni.

Nýju reglurnar íþyngjandi

„Það er alveg ljóst nefnilega að þessar nýju sóttvarnarreglur þær eru verulega íþyngjandi fyrir sviðslistastofnanir. Þar vegur þyngst ákvæði um að viðhafa skuli metra reglu á milli ótengdra aðila í sitjandi sal“ segir Brynhildur.

Þetta ákvæði þýði í raun að fimm hundruð verði aðeins þrjú hundruð og fimmtíu gestir. Erfitt sé að keyra mannmargar sýningar á stóra sviðinu eins og Níu líf og Emil í Kattholti í skertum sal.

„Það er nefnilega ýmislegt í reglugerðinni sem að skýtur dálítið skökku við það rýmar ekki alveg saman að ef, ákvæði um einangrun og sóttkví, ef að það á að aflétta því 24. febrúar þá stenst það tæplega skoðun að það eigi að vera metra regla á milli óskildra í sitjandi sal í sviðslistastofnun. Þar sem allir sitja kyrrir snúa í sömu átt og eru með grímu“ segir Brynhildur.

Hvaða tvö hundruð á að vísa úr hverjum sal?

„Í Borgarleikhúsinu núna erum við með hundrað uppseldar sýningar á stóra sviðinu sem þýðir það að við erum með hundrað uppseldar sýningar á Níu lífum og Emil í Kattholti þetta eru tæplega 55 þúsund manns sem eiga miða hjá okkur og þetta eru uppseldir salir og nú á að fara að starfa fyrir skertum sal og þá spyr ég hvaða tvö hundruð á að vísa úr hverjum sal“ segir Brynhildur.

Miðasalan þarf þá að taka alla miða til baka og senda aðeins hluta þeirra aftur út. Borgarleikhússtjóri segir hetjur vinna í miðasölunni og vonar að ákvæðið um eins metra regluna verði endurskoðað.

„Við höfum í einu og öllu farið eftir þeim reglugerðum og  settum reglum hingað til og munum gera það eftir sem áður  en það verður líka að vera einhver glóra það verður að haldast í hendur hvert samfélagið er að fara annars“ segir Brynhildur. „Eins metra reglan er það sem vængstýfir okkur. Við viljum metrann burt, það er nýja slagorðið.“.