
Vetrarfærð í dag og nóg að gera hjá snjómokstursmönnum
Sighvatur Blöndal Cassata, snjómokstursmaður, er búinn að vera að störfum síðan klukkan fjögur í nótt á suðvesturhorninu. Hann segir janúar þó ekki hafa verið sérlega snjóþungan þetta árið.
„Þetta er búið að vera voða lítið af snjó, þetta hefur aðallega verið hálka. Svona svipað og í fyrra. En snjórinn er aðeins að sækja í sig veðrið“ segir Sighvatur.
Hvernig er færðin núna hérna sunnan heiða?
„Hún er bara mjög góð, þetta er eiginlega alveg orðið autt hér á Kjalarnesinu. Það er smá í Kollafirði á steypta kaflanum, hann er alltaf slæmur, það skefur voða mikið þar“ segir Sighvatur. „Það er einn og einn bakki sem er að koma hérna inn. Þetta fer minnkandi núna. Þetta er orðið allt blautt og fínt hérna ég er eiginlega bara að klára Kjalarnesið og athuga hvort ég fari inn í Hvalfjörð“.
Nú spáir áframhaldandi úrkomu, sérð þú fram á að vera í startholunum í allan dag?
„Já já, það spáir éljum og svona í dag. Þannig nú fer maður bara beint heim að lúlla“ segir Sighvatur.
Þungfært á Vestfjörðum
Víða er þungfært á vegum þennan morguninn, en Vegagerðin varar sérstaklega við þungu færi á Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingur er á Hálfdán, Mikladal, Þröskuldum, Klettshálsi og Hjallahálsi. Beðið verður með snjómokstur í Ísafjarðardjúpi fram til hádegis vegna veðurs.
Þæfingsfærð og skafrenningur eru á Brattabrekku og hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Snjóþekja eða hálka er á öðrum vegum vestanlands og víða éljagangur.
Á suðausturlandi er snjóþekja á Mýrdalssandi en hálka eða hálkublettir frá Skálm að Lómagnúp. Víða er hálka á útvegum. Vegfarendur eru beðnir að vera á verði fyrir vetrarblæðingum á vegum austan Skeiðarársands.
Snjóþekja er á Öxnadalsheiði og hálka eða hálkublettir víða á öðrum vegum norðantil.