Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney með COVID

Mynd með færslu
Mitt Romney. Mynd:
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney hefur greinst með COVID-19 en er einkennalaus. Hann er í einangrun og sinnir störfum sínum heima við að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá skrifstofu þingmannsins.

Ann, eiginkona Romneys, er ekki smituð. Romney er repúblikani og fulltrúi Utah-ríkis í öldungadeildinni. Hann er fullbólusettur og hefur auk þess fengið örvunarskammt. 

Romney braut blað í sögu öldungadeildarinnar í febrúar árið 2020 þegar hann greiddi atkvæði með sakfellingu Donalds Trump þáverandi Bandaríkjaforseta.

Hann var fjórði forsetinn til að verða ákærður fyrir embættisglöp en aldrei áður hafði þingmaður greitt atkvæði með sakfellingu forseta úr eigin flokki. 

Trump var sýknaður af ákæru fyrir að hafa haldið eftir nærri 400 milljónum Bandaríkjadala varnaraðstoð til Úkraínu 2019 uns þarlend stjórnvöld samþykktu að hefja rannsókn á Joe Biden, núverandi forseta.