Mynd: EPA-EFE - EFE

Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.
Mexíkó: Hið minnsta þrettán fórust í rútuslysi
30.01.2022 - 05:58
Að minnsta kosti þrettán fórust og tíu slösuðust þegar rúta valt í Mexíkó í gær. Tvö hinna látnu voru börn eða unglingar. Alvarleg umferðarslys eru nokkuð tíð í landinu og á síðasta ári urðu tvö mjög mannskæð slys.
Langferðabifreiðin var á leið til bæjarins San Juan de Los Lagos í Jalisco-ríki vestanvert í landinu. Þangað ætlaði fólkið að fara þrátt fyrir að árlegum hátíðahöldum í kringum helgidóm kaþólskra í bænum hafi verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.
Um það bil tvær milljónir sækja helgidóminn heim á hverju ári. Mannskæð bílslys eru algeng í Mexíkó en í september á síðasta ári fórust sextán í árekstri rútu og flutningabíls í Sonora-ríki í norðurhluta landsins. Í apríl fórust að minnsta kosti sextán í árekstri tveggja fólksflutningabíla á sömu slóðum.