Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fleiri segja upp störfum á Herjólfi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skipstjóri og annar stýrimaður á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi sögðu nýverið upp störfum og fyrr í vetur gerðu tveir stýrimenn hið saman. Samkvæmt frétt bæjarfjölmiðilsins Tíguls eru uppsagnirnar tilkomnar vegna málefna yfirskipstjóra Herjólfs sem var lækkaður í tign eftir að athugasemd og kvörtun barst um óeðlileg vinnubrögð af hans hálfu.

Annað sem ekki er tilgreint er sömuleiðis sagt koma til sem ástæða uppsagnanna.

Skipstjórinn hélt áfram að sigla eftir að atvinnuréttindi hans runnu út fyrir jól og því var lögskráningu skipsins ábótavant. Atvinnuskírteini hans var endurútgefið hjá Samgöngustofu 4. janúar síðastliðinn.

Tígull hefur eftir heimildarmanni sínum að fleiri úr áhöfn Herjólfs séu að íhuga uppsögn vegna málsins en segja skipstjórann hafa verið sendan í leyfi að beiðni áhafnarinnar.

Arnar Pétursson stjórnarformaður Herjólfs tjáði sig ekki við bæjarmiðilinn og Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri kvaðst heldur ekki verða við beiðnum um upplýsingar varðandi starfsfólk fyrirtækisins.