Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lýsir yfir vonbrigðum með afléttingaráætlun stjórnvalda

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að afléttingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær hafi valdið vonbrigðum. Hún telur að hægt hefði verið að taka mun stærri skref í afléttingum á samkomutakmörkunum.

Nýjar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti. Helstu breytingar eru að nú mega 50 koma saman í stað tíu, krár og skemmtistaðir mega opna að nýju en gestir verða yfirgefa staðina klukkan tólf á miðnætti. Þá mega 500 koma saman á sitjandi viðburðum og ekki er þörf á hraðprófum.

Veitingamenn hafa fagnað þessum afléttingum en telja hins vegar að hægt hefði verið að ganga lengra. Undir það tekur Diljá Mist en hún var gestur í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.

„Það hefur verið þannig að þegar heilbrigðisyfirvöld hafa farið í takmarkanir þá hafa þau ekki beðið boðanna. Jafnvel hert verulega á milli tveggja ríkisstjórnarfunda í sömu viku. Síðan þegar kemur að því að aflétta, kemur að því að færa okkur aftur til eðlilegs lífs, sem við erum búin að bíða eftir og takmarkið er auðvitað að við getum lifað með þessari veiru, þá verðum við að taka okkur tíma og flýta okkur hægt. Ég hef einfaldlega verið að benda á, og við í Sjálfstæðisflokknum, að stjórnvöldum er bara heimilt að beita þessum aðgerðum þegar það er skilgreind hætta til staðar af sjúkdómi sem er ógn við almannaheill. Þetta eru ófrávíkjanleg skilyrði sem að margir af okkar sérfræðingum og heilbrigðisstarfsfólki hafa verið að benda á að sé ekki lengur til staðar,“ sagði Diljá Mist.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV