Það mun ekki Ferrell sem heldur úti þessum Twitter-reikningi heldur er um gervireikning að ræða. Ástríða Ferrells fyrir Eurovision og kærleikar til Íslands hafa þó ekki farið framhjá þeim sem þar fer höndum um lyklaborð.
Flestir muna eftir Eurovision kvikmynd leikarans sem var tekin upp að stórum hluta á Húsavík og var frumsýnd árið 2020. Það ár varð kórónuveirufaraldurinn til þess að keppninni sem halda átti í Hollandi var aflýst. Það hefur aldrei gerst áður í sögu Eurovision.
Could I be Iceland’s singer in Eurovision this year?
— Will Ferrell (@OfficialWilllF) January 28, 2022
Í myndinni „Eurovison Song Contest: The Story of Fire Saga“ lék Ferrell hlutverk Íslendingsins Lars Eriksson sem ásamt æskuvinkonu sinni Sigrit Eriksdóttir lét langþráðan draum rætast og tók þátt í söngvakeppninni - sem fram fór í Edinborg á Skotlandi.
Kanadíska leikkonan Rachel McAdams fór með hlutverk Sigrit en auk þeirra lék Pierce Brosnan hlutverk föður Lars og Dan Stevens lék rússneska söngvarann Alexander Lemtov. Fjöldi Eurovision-stjarna birtist í myndinni og tók lagið.
Nokkrir íslenskir leikarar áttu einnig stórleik, Ólafur Darri Ólafsson birtist sem útvarpsstjóri og Hannes Óli Ágústsson var Olaf Yohanson, betur þekktur sem Ja Ja Ding Dong-gaurinn. Hann var stigakynnir Íslands á söngvakeppninni í fyrra.
Sennilega er of seint fyrirFerrell að senda inn lag, enda líklega ekki ætlunin, en fyrri undanúrslit Söngvakeppninnar hér heima verða 26. febrúar og aðalkeppnin er 12. mars.
Keppnin verður haldin í borginni Tórínó á Ítalíu en fulltrúar Íslands stíga á svið á fyrra undanúrslitakvöldinu þriðjudaginn 10. maí en úrslit ráðast laugardagskvöldið 14. maí.
Ferrell sýndi það og sannaði í Eurovision kvikmyndinni að hann er liðtækur söngvari og söng nokkur lög sjálfur þeirra á meðal hið goðsagnakennda Ja Ja Ding Dong.
Fréttin var uppfærð klukkan 1:27 með þeim upplýsingum að Ferrell sjálfur héldi ekki úti umræddum Twitter-reikningi.