Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hélt nágrannakonu sinni fanginni í rúma tvo tíma

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Maður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til níu mánaða fangelsisvistar fyrir að halda nágrannakonu sinni fanginni í rúmar tvær klukkustundir og beita hana kynferðisofbeldi. Hann varnaði henni að komast út úr íbúð sinni með því að tvílæsa útidyrahurð og skorða spýtu milli gólfs og hurðarhúns.

Ákærði var dæmdur fyrir að beita konuna ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann hafi án samþykkis borið hana inn í svefnherbergi sitt og kastað í rúm þar sem hann beitti hana kynferðisofbeldi.

Konan óskaði eftir liðsinni lögreglu eftir atvikið, þar sem hún lýsti því að nágranni sinn hefði boðið henni í heimsókn af loknum húsfundi. Hún hafi að lokum þegið boð hans og greindi frá því þau hefðu drukkið áfengi í íbúð hans. Ákærði hefði svo orðið kynferðislega ágengur og læst íbúðinni. Þar hafi hann svo haldið henni í rúmar tvær klukkustundir, eða frá klukkan átta til hálf ellefu.

Þá hafi hann reynt að fá hana með sér í sturtu og káfað á henni innan og utan klæða. Hún greindi lögreglu frá að hafa streist á móti án árangurs. Ákærði tók einnig af brotaþola farsíma sinn um tíma. Hún gat loks sett sig símleiðis í samband við systur sína og í framhaldi hringt í neyðarlínu og óskað eftir aðstoð lögreglu. Hún leitaði svo á neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis þegar hún loks komst út úr íbúðina.

Fullnustu refsingar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, brjóti ákærði ekki skilorð. Honum var gert að greiða brota þola 800.000 krónur í miskabætur, auk vaxta. Þá greiði hann tæpar fjórar milljónir í sakarkostnað til ríkissjóðs.

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir