Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dauðsföll af völdum stormsins Malik á Bretlandseyjum

29.01.2022 - 23:45
epa09716468 People watch the agitated water in the North Sea from the pier in the Harbour of Hirtshals, as the Storm Malik hits the Nothern Jutland West Coast at Hirtshals, Denmark, 29 January 2022.  EPA-EFE/HENNING BAGGER DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Níu ára drengur og sextug kona létu lífið eftir að þau urðu undir trjám sem féllu af völdum stormsins Malik sem gekk yfir Bretlandseyjar í dag. Veðrið gengur sömuleiðis yfir hluta Þýskalands, Danmörku, Svíþjóð og Noreg.

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir norðausturhluta Englands, hluta Norður-Írlands og austurströnd Skotlands. Tugir þúsunda heimila hafa verið án rafmagns í dag og óttast sú verði raunin í alla nótt víða.

Nokkrar skemmdir urðu á mannvirkjum og röskun varð á samgöngum. Veðurhamurinn hefur valdið vandræðum í suðurhluta Svíþjóðar með rafmagnsleysi og samgöngutruflunum á landi og í lofti.

Lögreglan í Bergen í Noregi hvetur íbúa til að halda sig innandyra meðan veðrið gengur yfir en víða hefur vindhraðinn náð styrk fellibyls. Hið sama á við í Danmörku þar sem búist er við að veðrið eigi eftir að versna enn frekar í nótt og á morgun.

Þar hefur vindhraðinn mælst upp undir 40 metrar á sekúndu, brúnum yfir Eyrarsund og Stórabelti hefur verið lokað fyrir umferð og lögregla á Norður-Jótlandi biður fólk að halda sig heima. 

Varað er við mikilli veðurhæð í norðausturhluta Þýskalands og búist er við að vatnshæð í Saxelfi nærri Hamborg verði 2,5 til 3 metrum meiri en í meðalflóði. 

Tré hafa víða riifnað upp og fallið, þakskífur fjúka af húsum og lestarferðum hefur verið aflýst, til að mynda í Slésvík-Holstein. Lögregla og björgunarsveitir hafa haft í miklu að snúast í Þýskalandi í dag vegna stormsins Malik.