
Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir norðausturhluta Englands, hluta Norður-Írlands og austurströnd Skotlands. Tugir þúsunda heimila hafa verið án rafmagns í dag og óttast sú verði raunin í alla nótt víða.
Nokkrar skemmdir urðu á mannvirkjum og röskun varð á samgöngum. Veðurhamurinn hefur valdið vandræðum í suðurhluta Svíþjóðar með rafmagnsleysi og samgöngutruflunum á landi og í lofti.
Lögreglan í Bergen í Noregi hvetur íbúa til að halda sig innandyra meðan veðrið gengur yfir en víða hefur vindhraðinn náð styrk fellibyls. Hið sama á við í Danmörku þar sem búist er við að veðrið eigi eftir að versna enn frekar í nótt og á morgun.
Þar hefur vindhraðinn mælst upp undir 40 metrar á sekúndu, brúnum yfir Eyrarsund og Stórabelti hefur verið lokað fyrir umferð og lögregla á Norður-Jótlandi biður fólk að halda sig heima.
Varað er við mikilli veðurhæð í norðausturhluta Þýskalands og búist er við að vatnshæð í Saxelfi nærri Hamborg verði 2,5 til 3 metrum meiri en í meðalflóði.
Tré hafa víða riifnað upp og fallið, þakskífur fjúka af húsum og lestarferðum hefur verið aflýst, til að mynda í Slésvík-Holstein. Lögregla og björgunarsveitir hafa haft í miklu að snúast í Þýskalandi í dag vegna stormsins Malik.