Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Verðbólga ekki verið meiri í áraraðir

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent milli mánaða og 5,7 prósent frá síðasta ári. Verðbólga á ársgrundvelli mælist nú 5,7 sem er með því hæsta í áraraðir.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofu Íslands. Samkvæmt spá Íslandsbanka frá því á síðasta ári, átti verðbólgan að ná hámarki í síðasta mánuði en tæki svo að hjaðna á nýju ári.

Þá mældust töluverðar verðhækkanir í flest öllum þeim flokkum sem Hagstofan vaktar, að frátöldum fatnaði, skóm og heimilisbúnaði, en þeir flokkar lækkuðu lítillega í takt við vetrarútsölur.

Rafmagn, hiti og húsaleiga hækkar mest

Mest hækkaði kostnaður við rafmagn og hita sem er nú 3,7 prósentum hærri en í mánuðinum á undan.

Húsaleiga hækkar einnig töluvert, mælist 1,5 prósent hærri nú en í síðasta mánuði og hefur mest áhrif á vísitöluna. Matur og drykkjarvara hækkaði um 1,3 prósent og nýjir bílar eru að jafnaði 2,2 prósent dýrari nú en í síðasta mánuði.