Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Telja að hylli undir lok kórónuveirufaraldursins

Mynd með færslu
 Mynd: F. Sandberg - SVT
Sænskur smitsjúkdómasérfræðingur telur að með mikilli útbreiðslu omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar stefni í nægilega öflugt hjarðónæmi til að faraldurinn gæti fljótlega orðið að baki. Fjöldi nýrra smita dag hvern gæti verið vanmetinn verulega.

Sérfræðingar telja að 150 þúsund Svíar sýkist daglega af COVID-19. Það er um 1,5% landsmanna og talsvert meira en opinberar tölur sýna. Sömu sérfræðingar telja að fljótlega taki að draga úr fjölgun smita.

Í umfjöllun á vef sænska ríkisútvarpsins segir að það gæti gerst þegar í næstu viku.

Tæplega 90 þúsund Svíar greindust smitaðir á miðvikudag en nokkur hópur fer ekki í sýnatöku til dæmis vegna þess hve langan tíma tekur að fá niðurstöðu. Auk þess eru allmargir einkennalausir. 

Því er það mat Toms Britton, stærðfræðiprófessors við Stokkhólmsháskóla að dagleg smit kunni að vera allt að tvöfalt fleiri en niðurstöður skimana bendi til.

Hann telur einnig að vegna þess mikla fjölda taki fljótlega að réna í faraldrinum. Joakim Dillner smitsjúkdómafræðingur við Karólínsku stofnunina tekur undir það. 

Dillner telur að hægjast muni á faraldrinum á einni til tveimur vikum og að svo margir verði orðnir ónæmir að faraldurinn verði hreinlega að baki. Það eigi ekki aðeins við um Svíþjóð heldur heiminn allan.