Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sjáðu lokamínútuna í leik Frakklands og Svíþjóðar

Mynd: EPA-EFE / MTI

Sjáðu lokamínútuna í leik Frakklands og Svíþjóðar

28.01.2022 - 21:20
Seinni undanúrslitaleikur dagsins á EM í handbolta var viðureign Svía og Frakka í Búdapest í Ungverjalandi. Liðin spiluðu upp á það hvort þeirra kæmi til með að mæta Spánverjum í úrslitaleiknum á sunnudaginn næstkomandi. Eftir æsispennandi lokamínútur voru það Svíar sem höfðu betur.

Það virtist vera eitthvað stress í sænska liðinu til að byrja með sem lentu snemma í kröppum dansi með Frakkana þar sem Dika Mem og Nikola Karabatic fóru fyrir sóknarleiknum. Í stöðunni 7-3 þá rönkuðu Svíar við sér úr rotinu og fóru að spila agaðri varnarleik og hætta að hleypa Frökkum í auðveld hraðaupphlaupsfæri, Andreas Palicka fór að verja eins og berserkur í marki Svía og var um tíma markahæsti leikmaður vallarins þegar hann skoraði þrjú mörk með stuttu millibili yfir allan völlinn. Upp steig síðan leikmaður að nafni Jim Gottfridsson og fór fyrir sóknarleik Svía þegar þeir framkvæmdu endur komuna og var staðan í hálfleik 17-14 Svíum í vil.

Í seinni hálfleik var áframhaldandi sýning hjá Gottfridsson, það skipti engu máli hvort um var að ræða stoðsendingar eða mörk, hann sá um þetta allt saman í sænska liðinu. Aymerick Minne var sprækastur í liði Frakka en hann kom inn á í hálfleik og skoraði eins og óður maður fyrir Frakka. 

Undir lokin virtust Svíar vera með þetta í hendi sér, innan við mínúta eftir og þeir með boltann tveimur mörkum yfir. Þá stal Frakkland boltanum og Yanis Lenne skoraði og minnkaði muninn niður í eitt mark. Því næst var komið að Lucas Pellas að tapa boltanum og upp geystust Frakkar. Boltinn endaði inn á línu hjá Ludovic Fabregas sem lét Andreas Palicka verja frá sér og sigur Svíanna staðreynd. Lokatölur 34-33 og Svíar leika til úrslita á sunnudaginn kemur en Frakkar og Danir mætast öðru sinni í keppninni í leik um bronsið á mótinu.