Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Omíkron-afbrigðið og bólusetningar ástæða til bjartsýni

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist vongóð um að brátt heyri covid-faraldurinn sögunni til. Hún segir að minni veikindi af völdum omíkron-afbrigðisins sem og góð þátttaka í bólusetningum sé ástæða til bjartsýni.

„Það sem gerir mig bjartsýna núna eru auðvitað öll þau samtöl sem við höfum átt við sérfræðinga á undanförnum vikum og það sem við lesum um álit erlendra sérfræðinga. Að við séum í raun á þeim stað að ekki bara hafi veiran breytt um eðli heldur séum við líka með þessa góðu bólusetningarstöðu og höfum náð ótrúlegum árangri í meðhöndlun sjúklinga í okkar heilbrigðiskerfi“ sagði Katrín eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar í dag.

„Ég vona að við séum komin á þann stað að bráðum verði þessi faraldur bara hluti af sögunni“ segir forsætisráðherra.

Katrín segir að gangi allt að óskum verði hægt að aflétta öllu um miðjan mars og þá hægt að taka upp eðlilegt líf að nýju. „Við höfum átt ótal samtöl við marga sérfræðinga og þríeykið og það er mjög uppörvandi að heyra ólíka sérfræðinga leggja mat á stöðu faraldursins og skynja bjartsýni hjá þeim.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Katrínu í heild í spilaranum hér að ofan.