Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kartöflur skortir til að seðja gesti skyndibitastaða

Franskar kartöflur í plastbakka.
Franskar kartöflur eru meðal þeirra matvæla sem innihalda transfitu. Mynd: Jean Scheijen - Freeimages
Skyndibitakeðjan McDonalds hefur gripið til þess ráðs að skammta franskar kartöflur á fjölmörgum veitingastöðum sínum í Malasíu vegna þess að hráefni skortir. Hið sama er uppi á teningnum víða um Asíu.

Stór skammtur af frönskum ásamt einni stórri samsettri máltíð hefur verið tekinn af matseðli staðanna í landinu tímabundið að minnsta kosti. Þessi ákvörðun var tekin á mánudag en vonast er til að ástandið lagist fljótlega.

Stjórnendur McDonalds heita því að fylgjast vel með framboði á markaðnum svo viðskiptavinir þurfi ekki að bíða þess lengi að gæða sér á stórum skammti af frönskum. 

Fyrr í þessum mánuði varð McDonalds á Taívan uppiskroppa með brúnaða kartöfluklatta sem fluttir voru þangað frá Bandaríkjunum. Klattarnir sem stundum eru boðnir í strimlum hafa verið vinsæll réttur á morgunverðarborðum Bandaríkjamanna allt frá lokum 19. aldar. 

Frá því í desember hefur viðskiptavinum skyndibitakeðjunnar í Japan iðulega aðeins staðið til boð ein skammtastærð af frönskum kartöflum. Um það er kennt bæði faraldrinum og flóðum í Kanada sem urðu til þess að draga þurfti úr kartöfluútflutningi.

Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til skorts á ýmsum vörum. Það á jafnt við um matvæli sem margvíslega íhluti fyrir raftæki og jafnvel bíla.