
Sakaðar um margvísleg brot
Stjórn Hundaræktarfélags Íslands kærði mæðgurnar til siðanefndar félagsins. Í úrskurði Siðanefndar sem telur 67 blaðsíður eru sex brot mægðnanna að mati félagsins útlistuð.
- Þeim er gefið að sök að hafa skráð vísvitandi ranga ræktunartík á nokkur pörunarvottorð við umsókn um ættbókarskráningu gota, sem hafði þær afleiðingar að útgefnar ættbækur gotanna voru efnislega rangar.
- Að hafa brotið gegn skyldum sínum sem ræktendur með því að mæta ekki með hunda í lífsýnatöku til sönnunar á ætterni.
- Að hafa neitað að gefa upplýsingar eða svara fyrirspurnum með útúrsnúningum.
- Að hafa með fölsun og kosningasvindli tilkynnt eigendaskipti á tík þann 18. júní, sem hafði verið aflífuð viku fyrr, í þeim tilgangi að veita sambýlismanni annarrar konunnar kjörgengi og atkvæðisrétt á aðalfundi Schaferdeildar HRFÍ, sem hann átti annars ekki rétt til.
- Að hafa brotið gegn framkvæmdastjóra félagsins með meiðyrðum með því að saka hann um refisverða háttsemi og freklega varpa rýrð á störf hans í þágu félagsins.
- Og að hafa ætlað að para undaneldishund við ónefnda tík sem ekki var ættbókarfærð hjá HRFÍ.
Brotin og niðurstaðan algjört einsdæmi
Að mati siðanefndar eiga mæðgurnar sér litlar sem engar málsbætur. Í niðurstöðum nefndarinnar segir að þær hafi í málatilbúnaði sínum ítrekað gert lítið úr kæruefninu, alvarleika málsins og lögum og reglum félagsins. Þær eru áminntar og þeim vísað úr félaginu næstu fimmtán ár, útilokaðar frá allri þátttöku í starfi þess næstu fimmtán árin, útilokaðar frá rétti til að fá afhent ættbókarskírteini næstu fimmtán ár og sviptar ræktunarnafninu Gjósku. Þá segir jafnframt í úrskurðinum að hvergi sé að finna fordæmi um viðlíka brot og reynir á í málinu.
Vildu fá úrskurðinn dæmdan ógildan
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í vikunni frá dómi máli sem mæðgurnar höfðuðu gegn Hundaræktarfélaginu. Deilan stóð þá um störf og bráðabirgðaúrskurð siðanefndar í þessu máli. Mæðgurnar vildu meðal annars að dómstóllinn dæmdi ógildan úrskurð siðanefndar, sem var þá ekki búin að kveða upp úrskurð sinn.