Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Alls konar íslenskt á alls konar útlensku og íslensku

Mynd: Bríet / My Promised Land

Alls konar íslenskt á alls konar útlensku og íslensku

28.01.2022 - 16:35

Höfundar

Handboltinn er aðeins búinn að vera stríða okkur í Undiröldunni en það hefur ekki haft áhrif á útgáfuna, sem er öflug. Það er hún Bríet sem hyggur á víking og Sycamore Tree á útlensku sem ríða á vaðið en Hipsumhaps og Dr. Gunni, Lexzi, Soffía Björg, natanxo og Kafteinn Hafsteinn ásamt K-Rino fylgja fast á eftir.

Bríet – Cold Feet

Tónlistarkonan Bríet gaf út lagið Cold Feet síðastliðinn föstudag en lagið samdi hún ásamt Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Að þessu sinni syngur Bríet fyrir okkur á útlensku en ástæða þess er að hún stefnir í víking út fyrir landsteinana, og Cold Feet er fyrsta skref hennar í átt að erlendum markaði.


Sycamore Tree – La Flamme

Dúettinn Sycamore Tree hefur sent frá sér lagið La Flamme eða Eldinn en þeim fannst tilvalið að byrja árið á léttu, seiðandi og dreymandi lagi sem myndi minna á sumarið. Lagið er samið að sumri í Gainsbourg-stíl sjöunda áratugarins, inniheldur þverflautusóló og fjallar um ósátta konu sem er að láta karlmann heyra það á frönsku.


Hipsumhaps og Dr. Gunni – Góður á því

Tónlistarmennirnir Dr. Gunni og Fannar Ingi Friðþjófsson, söngvari og textahöfundur Hipsumhaps, buðu upp á fyrsta samstarf vetrarins í nýrri þáttaröð Hljómskálans sem byrjaði síðasta sunnudag á RÚV. Lagið heitir Góður á því og fjallar meðal annars um að vilja dansa diskó.


Lexzi – Before I Fall

Tónlistarkonan Alexandra Björk Elfar, sem kýs að kalla sig Lexzi, hefur sent frá sér eigið lag og texta, Before I Fall. Lexzi syngur lagið, útsetur og spilar á gítar en Stefán Örn Íkorni Gunnlaugsson spilar á píanó og masterar.


Soffía Björg – Last Ride

Soffía Björg Óðinsdóttir hefur sent frá sér annað lagið af plötu sinni, The Company You Keep, sem hún gaf út seint á síðasta ári. Lagið heitir Last Ride. Fyrsta lagið, sem heyrðist töluvert á Rásinni, var dúett hennar með Krumma, Rodeo Clown, sem er annar af tveimur dúettum á plötunni en í hinum á Pétur Ben innkomu.


natanxo – Ekki nóg

Á bakvið listamannsnafnið natanxo er hinn tuttugu og þriggja ára gamli tónlistarmaður Natan Þór Elvarsson. Hann hefur sent frá sér lagið Ekki nóg, sem er annað lagið sem hann sendir frá sér. Hann nam hljóðblöndun og tónsmíðar í Noregi og hefur síðan unnið hörðum höndum að því að móta sinn stíl eins og segir í tilkynningu frá kappanum.


Kafteinn Hafsteinn ásamt K-Rino – Sjálfskaparvíti

Lagið Sjálfskaparvíti er af væntanlegri breiðskífu Kafteins Hafsteins sem hann hefur gefið nafnið Sögur og hugleiðingar. Lagið inniheldur gestavers frá bandaríska rapparanum K-Rino sem er einn af frumkvöðlum Suðurríkjarappsenunnar. Kjartan Þórðarson gerir lagið og spilar á flest en Gunnar Jónsson Collider kryddar það með gítar og syntha.