Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tvö ár frá því óvissustigi var lýst yfir

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Tvö ár eru liðin í dag frá því óvissustigi almannavarna var fyrst lýst yfir vegna kórónuveirufaraldursins. Afléttingaráætlun stjórnvalda verður kynnt á morgun.

Sautján prósent smitast

Alls hafa sextíu og eitt þúsund sjö hundruð þrjátíu og sjö smit greinst frá upphafi faraldursins hér á landi og rúm milljón innanlandssýna verið tekin.

Sjö hundruð og átján hafa verið lagðir inn á sjúkrahús og hundrað og níu á gjörgæslu. 78 prósent landsmanna teljast nú fullbólusett og hafa hundrað áttatíu og átta þúsund fengið örvunarskammt.

Stærsta bylgja faraldursins miðað við fjölda smitaðra ríður enn yfir og greindust rétt tæplega sextán hundruð með covid-19 í fyrradag. 

Afléttingaráætlun kynnt á morgun

Frá upphafi faraldursins hefur samkomutakmörkunum verið komið á, þær hertar og þeim aflétt á víxl. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær hægt að slaka á takmörkunum vegna vægari einkenna sem fylgja omíkron-afbrigði veirunnar.

„Þannig afleiðingar af smitunum eru miklu minni. Þess vegna getum við hleypt veirunni meira lausri en áður,“ sagði Þórólfur í kvöldfréttum í gær.

Stjórnvöld hyggjast kynna afléttingaráætlun sína að loknum ríkisstjórnarfundi á morgun en hafa ekki tjáð sig um efni hennar.

Þúsundir losnuðu úr sóttkví í gær eftir að reglum var breytt og þurfa nú eingöngu þeir sem eru útsettir á heimili sínu að fara í sóttkví. Þeir sem eru útsettir fyrir smiti utan heimilis fara ekki í sóttkví heldur smitgát, en börn á leik- og grunnskólaaldri eru þar þó undanskilin.