
Tryggja áframhaldandi vopnahlé í austurhluta Úkraínu
Þýsk og frönsk stjórnvöld skipulögðu fundinn en sendinefndirnar ræddu saman í París í átta klukkustundir. Dmitry Kozak sem fer fyrir rússnesku sendinefndinni sagði að ákveðið hefði verið að vopnahléð héldi og kvaðst vonast eftir endanlegri niðurstöðu eftir tvær vikur.
Kozak sagði grundvallarniðurstöðuna þá að ábyrgðin á því að vopnahléð verði ekki rofið liggi hjá Úkraínuher og vopnuðum sveitum í Donetsk og Luhansk-héruðum Úkraínu.
AFP-fréttaveitan hefur eftir ónafngreindum aðstoðarmanni Emmanuels Macron Frakklandsforseta að niðurstöður dagsins lofi góðu um framhaldið en ætlunin er að fulltrúar ríkjanna hittist að nýju í Berlín í annarri viku febrúar.
Aðstoðarmaðurinn lagði áherslu á að viðræðurnar snerust um að stöðva átök við aðskilnaðarsinna en ekki um mögulega innrás Rússa í Úkraínu. Kozak tók undir það.
Ríkin fjögur hafa unnið að lausn mála allt frá árinu 2014 en sex árum síðar var vopnahléssamkomulag ríkjanna frá 2015 ítrekað. Það var eftir fund Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og Volodymyrs Zelensky forseta Úkraínu í desember 2019.
Sendinefndirnar fögnuðu því að loks miðaði í samkomulagsátt, í fyrsta sinn síðan þá. Ekki er ætlunin að þeir ræði saman að svo komnu máli. Því verða viðræðurnar í Berlín með sama sniði og í París í dag.
Um það bil 13 þúsund hafa fallið í átökum stríðandi fylkinga í austurhluta Úkraínu en vestræn ríki óttast að Rússar noti það sem átyllu fyrir innrás ef átök blossa þar upp að nýju.