Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mikil uppbygging fyrirhuguð á KR-svæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á KR-svæðinu í Vesturbænum á næstu árum. Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær að auglýsa tillögu um endurskoðað deiliskipulag, þar sem gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu.

Nýtt fjölnota íþróttahús rís á svæðinu með gervigraslögðum fótboltavelli. Aðalkeppnisvellinum verður snúið um 90 gráður og áhorfendastúku fyrir um 3.500 manns komið fyrir. KR-völlurinn tekur nú við um 2.700 áhorfendum. 

Fjölbýlishús verða byggð í jaðri svæðisins, við Kaplaskjólsveg og Flyðrugranda en þar er gert ráð fyrir um 100 íbúðum.

Deiliskipulagið verður auglýst á næstu vikum og gefst almenningi þá færi á að koma á framfæri athugasemdum áður en skipulagið verður endanlega afgreitt úr borgarkerfinu.

KR-ingar hafa lengi kallað eftir aðkomu borgarinnar að uppbyggingu á svæðinu. Samkvæmt framkvæmdaáætlun á fyrst að hefjast handa við íþróttahúsið og gæti sú vinna hafist þegar á næsta ári.

Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir í samtali við fréttastofu að áformin séu spennandi. Með þeim verði íþróttaaðstaða barna í Vesturbænum stórbætt, en bygging knatthúss eða fjölnota íþróttahúss á KR-svæðinu var meðal þeirra verkefna sem skoruðu hvað hæst í forgangsröðun Íþróttabandalags Reykjavíkur og borgarinnar á hugmyndum um ný íþróttamannvirki til ársins 2030.

Þá telur hann að bygging nýrra íbúðarhúsa með fjölbreytta þjónustu á jarðhæð verði til þess að auka á borgarbrag svæðisins.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV