Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Klassískt mótvægi við Instagrammað landslag

Mynd: Gjöfin til íslenzkrar alþýð / Listasafn ASÍ

Klassískt mótvægi við Instagrammað landslag

27.01.2022 - 13:45

Höfundar

„Það er eitthvað svo hressandi við þetta endurlit klassíkurinnar,“ segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir sem fjallar um upplifun sína af sýningunni Gjöfin til íslenzkrar alþýðu, sem unnin er í samstarfi við Listasafn ASÍ.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Tengsl við samfélagið hafa á undanförnum áratugum verið meginhugðarefni opinberra safna, hvort sem þau eru náttúruminjasöfn, listasöfn eða menningarminjasöfn. Aðgengi, inngilding og fjölbreytni eru meðal þess sem söfn á alþjóðavísu leggja nú hvað mesta áherslu á, meðal annars til að sanna tilverurétt sinn gagnvart eigendum sínum og fjármögnunaraðilum. Sérstaklega eru listasöfn í stöðugu átaki í þessu sambandi, í tilraun til að brjótast út úr staðalímyndinni um að tilheyra efri lögum samfélagsins fremur en svokölluðu „venjulegu“ fólki. Listasöfn hér á landi setja vel flest þó nokkurt púður í að brjóta niður þessa staðalímynd og reyna með ýmsum ráðum að ná til breiðari hóps gesta.

Listasafninu á Akureyri hefur á undanförnum árum vaxið fiskur um hrygg og í raun státa fá listasöfn hér á landi af eins mörgum sýningarsölum undir einu þaki og það. Þetta gefur safninu möguleika á að halda úti mörgum sýningum í einu, sem aftur skapar rými fyrir fjölbreytni. Um þessar mundir er breiddin mikil í sýningardagskrá safnsins, draumkennd og töfrandi verk Heklu Bjartar Helgadóttur, ungrar listakonu með rætur í héraði; skopleg og eilítið kaldhæðin verk tveggja karlkyns listamanna á miðjum ferli, þeirra Erlings Klingenberg og Ragnars Kjartanssonar; vídeóverk Steinu Vasulku, brautryðjanda á sviði vídeólistar og listakonu á heimsmælikvarða; og línuleg verk Karls Guðmundssonar en það er ekki oft sem mál- og hreyfihamlaðir listamenn eins og hann fá pláss í opinberum söfnum utan listahátíða sem sérstaklega eru sniðnar að fólki með fötlun. Þá eru ótaldir tveir sýningarsalir sem nú er verið að setja upp nýjar sýningar í og standa því tómir þegar þetta er skrifað. Auk þessara fjölbreyttu sýninga stendur nú yfir sýning sem vekur spurningar um aðgengi að myndlist og erindi hennar til almennings. Það er sýningin Gjöfin til íslenzkrar alþýðu sem unnin er í samstarfi við Listasafn Alþýðusambands Íslands, eða Listasafn ASÍ, eins og það er oftast kallað.

En hvað þarf að gerast til að hinn almenni borgari hafi áhuga á að sækja listasafn? Og hvers vegna ætti almenningur yfirleitt að hafa áhuga á myndlist? Þetta eru grundvallarspurningar sem hvert listasafn veltir fyrir sér. Og það voru þessar sömu spurningar sem vöktu fyrir Ragnari í Smára þegar hann gaf Alþýðusambandi Íslands listaverkasafn sitt árið 1961 og myndaði þar með stofngjöfina að Listasafni ASÍ. Markmið Ragnars með gjöfinni var göfugt: Að færa myndlistina til alþýðunnar, veita vinnandi fólki aðgang að henni og þar með hlutdeild í þeirri andargift og ánægju sem myndlist getur veitt fólki. Honum var umhugað um menningarlegt kapítal og vildi tryggja jafnræði fólks af ólíkum stéttum þegar kæmi að listum því að hann trúði að stöðugt samneyti við listir breytti fólki í upplitsdjarfari, hamingjusamari og betri einstaklinga. Hann vildi brjóta niður múra milli safns og almennings, hann sá fyrir sér að listin yrði hluti af hversdagslífi fólks í stað þess að þurfa að taka sér hlé frá daglegu brauðstriti og spássera inn á safn til að skoða myndlist. Þannig var mikil áhersla lögð á að halda úti vinnustaðasýningum undir yfirskriftinni „List um landið“, sem voru farandsýningar í samstarfi við verkalýðsfélög, opinberar stofnanir, einkafyrirtæki og sveitarfélög. Enn þann dag í dag setur safnið upp vinnustaðasýningar þótt þeim hafi fækkað til muna síðan þær stóðu sem hæst á níunda áratugnum.

Í dag hefur Listasafn ASÍ þá sérstöðu meðal opinberra safna hér á landi að það hefur ekki yfir eigin sýningarrými að ráða. Árið 2016 hætti safnið starfsemi sinni í Ásmundarsal á Freyjugötu í Reykjavík, þegar sambandið seldi húsið vegna rekstrarvanda. Margir lýstu áhyggjum sínum yfir þessum fréttum og óttuðust að fleiri söfn myndu leggja upp laupana en áhrif hrunsins höfðu þá haft veruleg áhrif á menningarlíf í landinu. En þótt sýningarsalurinn sjálfur, Ásmundarsalur, sé horfinn úr starfsemi safnsins, er safneignin enn til staðar, og sýningum er haldið úti í samstarfi við önnur söfn og sýningarrými um allt land, þótt vissulega hafi dregið verulega úr tíðni sýninga síðan safnið missti húsnæði sitt.

Á sýningunni sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri má sjá helstu gersemar úr safneign Listasafns ASÍ, verk eftir gömlu meistarana eins og Ásgrím Jónsson, Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaug Scheving, Þorvald Skúlason og Louisu Matthiasdóttur. Sýningarstjórn er í höndum Kristínar G. Guðnadóttur, listfræðings, sem leitast við að fanga þá meginhugsun sem lá að baki söfnunarstefnu Ragnars sjálfs og að spegla sýn hans á íslenska listasögu.

Sýningin er tvískipt, annars vegar er lögð áhersla á verk eftir fyrstu kynslóð íslenskra myndlistarmanna, þar sem túlkun þeirra á landslagi er í aðalhlutverki. Hins vegar eru verk sem spegla þá breytingu sem varð á íslenskri myndlist um og eftir seinna stríð, í átt að upplausn formsins og þróun í átt að abstrakt myndmáli. Stjarna sýningarinnar er Fjallamjólk Kjarvals, en þarna eru líka fjölmörg verk sem máluð eru á ýmsum stöðum á landinu, meðal annars í nærumhverfi Eyjafarðar. Þannig ættu safngestir að geta fundið fyrir persónulegum tengingum við verkin og speglað sig í hinu kunnuglega, sem er einmitt lykilinn að því að geta notið lista samkvæmt franska félagsfræðingnum Bourdieu.

Sýningin er klassísk í sniðum, þar sem hvert málverkið á fætur hverju öðru er hengt upp á hefðbundinn hátt, með tilheyrandi kastljósum og upplýsandi merkmiðum. En það er einmitt eitthvað svo hressandi við þetta endurlit til klassíkurinnar: Að horfa með augum málarans sem fer út í náttúruna og dvelur þar löngum stundum við að fanga landslag á léreft, sjá kyrralífsmyndir úr hversdagslegu eldhúsi eins og það leit út fyrir um 80 árum síðan, eða sjá mynd af konu frá fimmta áratugnum með sólhatt á framandi slóðum. Sýningin er þannig ágætis mótvægi við instagrammaðar og filteraðar myndir sem dynja á okkur á hverjum degi í gríðarlegu magni á samfélagsmiðlum, myndir sem teknar eru í hita leiksins og nánast án nokkurrar fyrirhafnar, hvort sem þær eru af íslensku landslagi, kvöldmatnum þann daginn eða fjölskyldum í sólarlandaferðum. Kannski einmitt þess vegna er mikilvægt að halda safnkosti þessa merka alþýðusafns á lofti og tryggja áframhaldandi aðgengi að honum, sama hver bakgrunnur okkar safngestanna er.