Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Völlur á Bandaríkjamönnum á vellinum

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Bandaríkjaher hefur aukið umsvif sín undanfarið á Keflavíkurflugvelli. Sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra telur það koma til vegna aukins eftirlits með ferðum Rússa. Það tengist aukinni spennu milli þeirra og Úkraínumanna.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag og framangreint haft eftir Alberti Jónssyni fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi og Bandaríkjunum. 

Umferð herflugvéla og ökutækja á flughlaðinu hefur aukist undanfarin misseri auk þess sem annríki sé við stórt flugskýli suðaustan við flugstöð Leifs Eiríkissonar.

Sömuleiðis segir Albert að rekja megi aukna notkun Keflavíkurflugvallar til þess að áætlun um frekari aðstöðu Bandaríkjamanna á Skotlandi hafi ekki komist til framkvæmda.

Það sé vegna þess að Bretar sjálfir séu að taka eigin vélar í notkun þar um slóðir. Albert segir að daglega hafi verið flogið frá Keflavík og allt austur yfir Eystrasalt vegna væringanna í austurvegi.

Einnig er haft eftir Friðþóri Eydal fyrrverandi upplýsingafulltrúa varnarliðsins að viðvera Bandaríkjamanna hérlendis hafi aukist mjög frá þeir tóku í notkun nýjar kafbátaleitarflugvélar.

Herinn hafi verið með allt að sjö slíkar vélar samtímis hér á landi. Þeim fylgi fjöldi starfsmanna og stuðningsliðs sem kalli á mikla og vaxandi þjónustu.

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að kostnaður við margvíslega uppbyggingu Bandaríkjahers nemi hátt í tíu milljörðum króna en Friðþór segir herinn vera að byggja aðstöðu sína upp frá grunni eftir brotthvarf hans árið 2006.