Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tíu marka sigur Íslands á Svartfjallalandi

epa09710580 Omar Ingi Magnusson (R) of Iceland in action against Vuk Lazovic of Montenegro during the Men's European Handball Championship main round match between Montenegro and Iceland at the MVM Dome in Budapest, Hungary, 26 January 2022.  EPA-EFE/Tibor Illyes HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Tíu marka sigur Íslands á Svartfjallalandi

26.01.2022 - 16:03
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætti Svartfjallalandi í síðasta leik liðanna í milliriðli Evrópumótsins. Ísland vann leikinn örugglega með tíu mörkum og þarf nú að bíða eftir úrslitum úr leik Danmerkur og Frakklands í kvöld til að komast að því hvort liðið spilar í undanúrslitum.

Ljóst er að liðið verður aldrei neðar en í þriðja sæti milliriðilsins og fær því að minnsta kosti að spila leikinn um fimmta sætið á föstudag gegn Noregi. Ef Danir vinna svo Frakka í síðasta leik dagsins fer íslenska liðið áfram í undanúrslit. Ef Danir og Frakkar gera jafntefli eða ef Frakkar vinna þá fara Danir og Frakkar hins vegar áfram. 

Sigurinn var raunar aldrei í hættu í dag, Ísland náði frumkvæðinu strax á upphafsmínútunum og leit aldrei um öxl. Ómar Ingi Magnússon var stórkostlegur í leiknum, skoraði 11 mörk og er nú orðinn markahæsti maður mótsins með 49 mörk. Níu mörkum munaði í hálfleik, 17-8, og þrátt fyrir smá áhlaup Svartfellinga komust þeir aldrei nógu nálægt til að ógna íslenska forskotinu og lokatölur urðu 34-24.