Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Telja að búast megi við ríflega milljón ferðamönnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ríflega milljón ferðamenn heimsækja Ísland árið 2022 gangi þjóðhagsspá Íslandsbanka eftir. Það er svipaður fjöldi og hingað kom árið 2015 en ríflega 40% færri en árið 2019. Sérfræðingar bankans gera ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi enn næstu tvö til þrjú ár.

Um það bil 45% fleiri sóttu Ísland heim á síðasta ári en árið 2020 eða tæplega 700 þúsund, langflestir mánuðina júlí til október eða 470 þúsund. Miklu hafi breytt fyrir ferðaþjónustuna að ferðamenn dvöldu lengur og eyddu meira fé en fyrir faraldur sem auki bjartsýni um framtíð greinarinnar.

Í þjóðhagsspánni kemur fram að þótt skammtímahorfur hennar hafi versnað með tilkomu omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar sé talið að ferðavilji fólks sé mikill og því sé það tekið að ferðast þrátt fyrir veiruna. Ísland sé vænlegur kostur þar sem hér megi dvelja án mikillar nándar við aðra.

Væg veikindi af völdum omíkron og útbreidd bólusetning meðal þeirra þjóða sem helst heimsækja Ísland gefi tilefni til hóflegrar bjartsýni þrátt fyrir óvissu vegna nýrra afbrigða.

Því megi búast við 1,1 til 1,2 milljónum ferðamanna á árinu, 1,5 á næsta ári og 1,7 milljónum árið 2024. Það skipti verulegu máli fyrir hagþróun komandi missera hvernig þróunin verði að mati sérfræðinga Íslandsbanka.