Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tæplega helmingur heimilisfólks smitaður

26.01.2022 - 23:40
Mynd með færslu
 Mynd: 360° - Já.is
Kórónuveiran hefur stungið sér niður á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. 66 eru með varanlega búsetu og 30 þeirra eru smitaðir, 11 fleiri en í fyrradag.

Kristján Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að veikindin líkist meira flensu og séu ekki alvarleg. Ertu ekki hræddur um að þetta breiðist meira út?  „Jú en við erum þá tilbúin. Ég held að toppurinn á þessu verði núna rétt fyrir helgi eða um helgina en svo fer þetta að ganga niður", segir Kristján.
Hópsmit er einnig komið upp á hjúkrunarheimilinu Grund.  „Núna eru 27 veikir og aðal áskorunin er að manna vaktir því starfsfólkið hefur verið að sýkjast", segir  Sigríður Sigurðardóttir sviðssstjóri gæða- og framleiðslumála á Grundarheimilunum. Hún segir að á deildinni þar sem smitin greindust hafi 9 starfsmenn veikst af veirunni.  170 heimilismenn eru á Grund og í fyrra kom upp hópsmit þegar 12 veiktust. „Þá urðu flestir ansi veikir en veikindin núna eru ekki jafn alvarleg. Það eru nokkrir með hita og væg einkenni í öndunarfærum. Okkur dettur í hug að það hafi verið delta-afbrigðið sem herjaði á okkur síðasta haust en að nú séu heimilismenn með omikron-afbrigðið", segir Sigríður Sigurðardóttir.

 

Arnar Björnsson