Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Krefjast 350 þúsund króna skattleysismarka

26.01.2022 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það þarf ekkert annað en vilja og samstöðu til að tryggja 350 þúsund krónur hér á landi - skatta- og skerðingarlaust. Annað er til skammar. Þetta kom fram í máli þingmanna Flokks fólksins þegar rædd var tillaga þeirra um það. Hingað og ekki lengra sagði Tómas A. Tómasson, alltaf kallaður Tommi, meirihluti og minnihluti yrði að taka höndum saman og leysa málið. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, mælti fyrir þingsályktunartillögu sinni og alls þingflokksins síðdegis í dag um skattleysi launatekna undir 350 þúsund krónum og 350 þúsund króna lágmark til framfærslu lífeyrisþega. Þau segja útlit fyrir að verðlag haldi áfram að hækka og það bitni verst á fátæku fólki sem muni um hverja krónu í útgjöldum. Þingflokkurinn vill að fjármálaráðherra verði falið að leggja fram lagafrumvarp þess efnis fyrir árslok 2022. „Við höfum allt að vinna allt að vinna og engu að tapa. Með þessu sýnum við í verki að viljinn er til staðar og við erum hér fyrir alla en ekki bara suma.“

Guðmundur Ingi Kristinsson tók í sama streng og Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði að hún fengi á tilfinninguna að hún og aðrir sem byggju við allsnægtir héldu að verið væri að ýkja þegar talað er um hópinn sem hefur áhyggjur af næstu máltíð og á ekki fyrir mat út mánuðinn. „En það er ekki svo, staðan er svona í alvöru á Íslandi í dag,“ sagði Ásthildur Lóa. Tómas A. Tómasson var á sömu nótum. „Ég er með þá skoðun að þetta er spurning um samstarf. Meirihluti og minnihluti taka saman höndum og segja the buck stops here, hingað og ekki lengra.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV