Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þúsundir losna úr sóttkví á miðnætti

Mynd: Sigurður Kristján Þórisson / RÚV
Þúsundir skólabarna sem verið í sóttkví undanfarna daga snúa aftur í skóla á morgun eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um tilslakanir á reglum um sóttkví. Afléttingaráætlun stjórnvalda verður kynnt á föstudaginn.

Frá og með miðnætti þurfa eingöngu þeir sem eru útsettir á heimili sínu að fara í sóttkví. Sem fyrr varir sóttkví í fimm daga og PCR-próf þarf til að losna. Ef ekki er fullur aðskilnaður inni á heimilinu þurfa þeir sem eru í sóttkví að fara í PCR-próf degi eftir að hinn smitaði útskrifast. Þríbólusettir fara hins vegar eingöngu í smitgát sem lýkur með PCR-prófi á fimmta degi.

Hins vegar þurfa þeir sem eru útsettir fyrir smiti utan heimilis ekki að fara sóttkví heldur smitgát. Hún felur í sér grímunotkun í margmenni og að forðast beri fjölmenna staði og viðkvæma einstaklinga. Ekki er þörf á sýnatöku lengur til að losna úr smitgát og börn á leik- og grunnskólaaldri eru undanþegin smitgát nema smit sé inni á heimili. Þá er það sóttkví.

„Þannig að þetta er hér um verulega afléttingu að ræða og léttir mjög á smitrakningu í skólum, bara alveg og sýnatökum sem hafa fylgt í kjölfarið þegar þú ert í sóttkví og heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir þeim getur þá sinnt öðrum störfum,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að um ákveðin straumhvörf í faraldrinum sé að ræða. „Þetta er auðvitað ákveðin eðlisbreyting í því hvernig við erum að takast á við faraldurinn og það ræðst af því að faraldurinn sjálfur hefur breytt um eðli.“

Búast við meiri veikindum en minni smitrakningu

Rúmlega 13 þúsund manns eru skráð í sóttkví í dag og líklegt að meginþorri þeirra losni á miðnætti. Viðbúið er að smitum fjölgi enn frekar við þessar afléttingar en heilbrigðisráðherra segir sóttvarnalækni hafa verið með í ráðum.

Skólastjórnendur búa sig undir fleiri smit og jafnvel tímabundnar lokanir vegna smita, en um leið aukið svigrúm til að sinna kennslu. „Við munum sjá jafnvel þessi 6500 börn sem að talin eru við sóttkví í dag mæta til vinnu á morgun og örugglega töluvert af starfsfólki en um leið verður sú breyting á skólastarfi á morgun að smitrakningin sem hefur verið ákaflega mikil í sumum skólum, stöðugt frá áramótum, hún verður aflögð,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands.

Afléttingaáætlun kynnt á föstudaginn

Það verður svo að loknum ríkisstjórnarfundi á föstudaginn sem stjórnvöld kynna afléttingaráætlun sína. Ráðherrarnir vildu lítið gefa uppi um tímasetningar en segja þær stjórnast af viðbúnaðarstigi Landspítala og almannavarna, sem nú er á neyðarstigi. „Ég held að við bíðum bara spennt eftir föstudeginum. Eins og ég segi, það er of snemmt að tjá sig um einstaka afléttingar.“

Forsætisráðherra sér fram á endalok faraldursins. „Stóra málið fyrir okkur öll er að við sjáum fram á það að þessu gæti hugsanlega verið að ljúka. Og það er auðvitað stórkostlegt er það gengur eftir.“