Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þriðja elsta ljósmynd Íslandssögunnar fundin

25.01.2022 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd: Den Kongelige Fotografisamling,
Þriðja elsta ljósmynd sem tekin var á Íslandi fannst í myndasafni dönsku konungsfjölskyldunnar þegar þar var sett á vefinn á síðasta ári. Þar var hún eignuð Sigfúsi Eymundssyni á sjöunda áratug 19. aldar en frekari athugun leiddi í ljós að hún var tekin í leiðangri Napóleons prins hins franska til Íslands árið 1856.

Inga Lára Baldvinsdóttir sagnfræðingur rak augun í myndina þegar hún var að skoða ljósmyndasafnið og fannst upprunalýsingin þar ekki passa við myndina. Inga Lára sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gær að ljósmyndasafn dönsku konungsfjölskyldunnar hefði löngum ekki verið aðgengilegt almenningi. Þótt svo fyrirspurnum hefði verið komið á framfæri um íslenskt efni hefðu þær ekki borið mikinn árangur. Nú væri hins vegar búið að gera hluta safnsins aðgengilegan á vef konungsfjölskyldunnar.

„Þegar maður heyrir af nýjum upplýsingabönkum með myndum þá er forvitnilegt að skoða það,“ sagði Inga Lára. Það gerði hún strax í desember og rak augun í mynd sem henni virtist vera mun eldri en aðrar myndir á vefnum. Sigfús Eymundsson er skráður ljósmyndari á vefnum og myndin skráð á tímabilið 1860 til 1870. Ingu Láru þótti líklegt að myndin væri eldri en svo og gaumgæfði hana því betur. „En þegar maður fór að skoða myndina betur þá var frágangur á henni með allt öðrum hætti en á myndum Sigfúsar.“ Skorið var á öll horn myndarinnar og þar mátti sjá nafnið L. Rousseau. Þar var komið nafn ljósmyndarans Louis Rousseau sem var ljósmyndari í för Napóleons prins um Norðurlöndin 1856. Hann tók um 40 myndir á Íslandi og er myndin af Tjörninni aðeins önnur myndin sem vitað er um að enn sé til. Hin er af ungri konu og geymd á frönsku safni.

Inga segir að sjónarhorn myndarinnar, á norðurhluta Tjarnarinnar, sé þekkt úr ýmsum myndatökum ljósmyndara og myndum listamanna á ýmsum formum frá þessum tíma.

Inga segist hafa skrifað greinina í Morgunblaðið til að halda því til haga að myndina væri þarna að finna. Ekki væri nóg að myndir væru til heldur þyrfti fólk að vita af því að þær væru til.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV