Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kennarar uggandi um að stór hópur sé settur í áhættu

25.01.2022 - 18:41
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir að það renni tvær tvær grímur á kennarastéttina við ákvörðun stjórnvalda um að fella niður sóttkví grunnskólabarna. Nú sé verið að hleypa veirunni lausri í skólum þar sem flest smitin hafi greinst að undanförnu. Þar með sé stór hópur settur í áhættu.

„Það er þá verið að hleypa veirunni lausri í skólanum því þar hafa flest smitin verið. Núna undanfarið hefur stór hópur barna að greinast með covid í sóttkví en með því að sóttkví verður felld niður þá gerum við ráð fyrir því að þessi börn verði í skólanum þar til þau veikjast og eru þar af leiðandi farin að smita verulega út frá sér,“ segir Þorgerður Laufey. 

„Það er verið að setja stóran hóp í áhættu, ekki bara starfsfólk skóla heldur líka börn,“ segir Þorgerður Laufey. Hún segir að það væri áhugavert að sjá hvernig smit hafa dreifst milli starfsstétta, undanfarið hafi verið mikið um smit meðal kennara og annars starfsfólks skóla. Við

Hún segir að hafa verði í huga að meðalaldur kennara sé hár og í þeirra hópi sé fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Að auki megi ekki gleyma að margir í þessum hópi fengu Janssen í upphafi og séu því ekki þríbólusettir. Hún segir að kennarar líkt og aðrir verði þó að treysta því að sérfræðingar sem fjalla um sóttvarnamál viti hvað þeir eru að gera. Aflétting sóttkvíar veki þó upp spurningar meðal kennara um hvort að starfsumhverfi þeirra sé öruggt.

Þorgerður Laufey segir að grunnskólakennarar hafi verið í ákveðnu fárviðri frá því um jólin og staðan breyst á hverjum degi. „Síðast var kannski ákveðin hótfyndni í kennarahópnum og fólk fór að tala um að það væri heimilt að opna kennarakrá enda væri ekkert sem myndi bíta á okkur en núna þegar er verið að létta sóttvörnum á öllum stöðum og fella út sóttkví þá kannski renna tvær grímur á kennarastéttina.“ Hún sagði að nú þyrftu kennarar kannski að fara að nota hlífðarbúnað sem er þeim ekki eiginlegur.