Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Býst við fjölgun smita í skólum og hjá barnafjölskyldum

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur áherslu á í nýju minnisblaði sínu að aðgerðum verði aflétt hægt, til að koma í veg fyrir bakslag í fjölda smita og alvarlegra veikinda sem gætu reynst heilbrigðiskerfinu erfið. Nú þurfa börn á leik- og grunnskólaaldri ekki að fara í sóttkví vegna smita í skólum og Þórólfur segir líklegt að þessar breytingar og fleiri leiði til fjölgunar smita, bæði innan skólanna og utan.

Áætlun um afléttingu samkomutakmarkana verður kynnt á föstudag, en breytingar á reglum um sóttkví taka gildi nú á miðnætti. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti breytingarnar að loknum fundi ríkisstjórnarinnar sem lauk í hádeginu. „Hér erum við að létta mjög á smitrakningu í skólum, hér erum við að létta á sýnatökum þar sem heilbrigðisstarfsfólk er að sinna þeim og getur þá sinnt öðrum störfum. Þannig hér er um verulega afléttingu og breytingu á sóttvarnaráðstöfunum að ræða,“ sagði Willum í hádeginu. 

Þetta er töluverð stefnubreyting frá því sem nú er. Síðustu vikur hafa heilu bekkirnir farið í fimm daga sóttkví vegna eins smits í bekknum. Nú eru börn undanskilin sóttkví og smitgát, og því verður í raun ekki gripið til neinna aðgerða vegna smita nema einangrunar þeirra sem smitast. Kennarar verða hvattir til að gæta vel að sóttvörnum, nota grímur og andlitshlífar, sér í lagi ef þeir hafa ekki fengið örvunarskammt. 

Þórólfur lagði til afléttingar í minnisblaðinu og sagði brýnt að einfalda fyrirkomulag varðandi sóttkví, sýnatökur og greiningu. Núverandi reglur um sóttkví barna hafi valdið miklum fjarvistum í skólum og á vinnumarkaði. Mörg börn hafi oft þurft að fara í sóttkví og slíkt geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir börn. Því lagði hann til að börn á grunn- og leikskólaaldri þyrftu ekki að fara í sóttkví vegna smita í skólum. Þessar afléttingar verði líklega til þess að smitum í skólum eigi eftir að fjölga. Sömuleiðis hjá fjölskyldum barna á leik- og grunnskólaaldri. „Þær breytingar sem hér eru lagðar til munu líklega auka smit í skólum og hjá fjölskyldum barna á leik og grunnskólaaldri. Tilslakanir í kjölfarið á ýmsum samfélagslegum aðgerðum munu á hinn bóginn að líkindum leiða til fjölgunar smita í eldri aldurshópum. Mikilvægt er hins vegar að sú fjölgun leiði ekki til fjölgunar á alvarlegum veikindum og spítalainnlögnum,“ segir í minnisblaðinu.

Þórólfur lagði til ýmsar afléttingar til að einfalda reglur um sóttkví og smitgát og fækka um leið PCR sýnatökum. Þannig verði létt á takmörkunum sem snúa að einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum. Áfram verði að fylgjast með innlögnum á sjúkrahús og stjórnvöld tilbúin til að grípa til ýmissa mótvægisaðgerða.