Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfir hundrað hundar smitast af óþekktri hóstapest

24.01.2022 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfir hundrað tilvik hafa verið tilkynnt Matvælastofnun um bráðsmitandi öndunarfærasýkingu meðal hunda. Grunur er um talsvert fleiri tilfelli. Matvælastofnun hefur haft pestina til rannsóknar, en niðurstöður úr PCR-greiningum benda til þess að orsökin sé hvorki covid né hundainflúensa. Dýralæknar segja mögulegt að nýjar veirur eða bakteríur, sem ekki hafi greinst í hundum hér á landi áður, valdi veikindunum.

Orsök pestarinnar til rannsóknar á tilraunastöð

Tilraunastöð Háskólans að Keldum hefur staðið að rannsókn á pestinni síðustu misseri í samvinnu við Matvælastofnun. PCR-greining gaf neikvæðar niðurstöður fyrir bæði kórónuveirunni, COVID-19 og hundainflúensu. Von er á niðurstöðum úr frekari rannsóknum frá tilraunastöðinni innan skamms.

Hótelhósti, eða kennelhósti, er megin einkenni pestarinnar.„Hótelhósti er í raun lýsing á sjúkdómseinkennum í efri öndunarvegi, og margvísleg smitefni geta legið að baki, bæði veirur og bakteríur sem þá valda einkennum frá efri öndunarvegi svo sem hósta, og útferð úr nefi og augum, en í sumum tilfellum einnig slappleika og lystarleysi. Einkennunum getur svipað til þess að aðskotahlutur, t.d. flís eða strá hafi fests í hálsi hundsins“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Ekki vísbendingar um smit með innfluttum hundum

Eitt af því sem stofnunin hefur haft til rannsóknar, er hvort pestin hafi borist til landsins með nýlega innfluttum hundum. Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir hjá stofnuninni, segir að sú rannsókn hafi ekki bent til þess að smit hafi borist með hundi erlendis frá, en lög hérlendis gera kröfu um að innfluttir hundar sæti 14 daga einangrun eftir komu til landsins.

Flestir hundarnir slappir í 2-4 daga

Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir hjá stofnuninni segir svo hraða útbreiðslu mjög óvenjulega þegar komi að smitsjúkdómum gæludýra hérlendis. Sem betur fer sleppi þó meginþorri dýranna með væg einkenni sem endist í tvo til fjóra daga.  Helsta einkenni pestarinnar er hósti. Þá fá einhverjir hundar hita, eru lystarlitlir og slappir. 

Matvælastofnun bendir hundaeigendum á að forðast útivistarsvæði þar sem margir hundar komi saman á meðan pestin gengur yfir.