Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Svekkjandi tap í sveiflukenndum leik

epa09706611 Omar Ingi Magnusson (C) of Iceland in action against Croatian players Jakov Gojun (L) and Tin Lucin (2-R) during the Men's European Handball Championship main round match between Iceland and Croatia in Budapest, Hungary, 24 January 2022.  EPA-EFE/Zsolt Szigetvary HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Svekkjandi tap í sveiflukenndum leik

24.01.2022 - 16:10
Ísland tapaði öðrum leik sínum á Evrópumótinu í handbolta í dag þegar liðið mætti Króötum. Liðið hefur núna unnið fjóra af fyrstu sex leikjum liðsins en á þrátt fyrir það góða möguleika á að komast í undanúrslit á mótinu.

Byrjunin á leiknum gaf leikmönnum íslenska liðsins byr undir báða vængi allt frá fyrstu mínútu leiksins. Ísland komst snemma í tveggja marka forystu og hún var svo orðin að fimm mörkum áður en langt um leið þegar Sigvaldi Guðjónsson kom Íslandi í 9-4 með góðu marki. Lok fyrri hálfleiksins voru ekki nægilega góð og Króatar gengu á lagið með því að leita inn á línumanninn sinn, Ivan Cupic var tíður gestur á vítalínunni og minnkuðu Króatar muninn í 12-10 rétt áður en fyrri hálfleik lauk.

Seinni hálfleikur byrjaði illa hjá íslenska liðinu, Króatar mættu sprækari til leiks úr búningsklefunum og áður en fimm mínútur voru liðnar höfðu þeir tekið forystuna 14-13. Hrakfarir Íslands héldu áfram eftir því sem leið á hálfleikinn og gekk erfiðlega að finna glufur á frábærri vörn Króata. Sigvaldi Guðjónsson var líflegur í hægra horninu en Króatar hömruðu járnið meðan það var heitt á hinum enda vallarins. Luka Cindric kom Króötum í 20-17 þegar rétt rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum og allt stefndi í sigur Króata. Ísland fór þá í sjö á móti sex sem heppnaðist prýðilega og Elvar Ásgeirsson jafnaði metin með góðu skoti þegar rétt rúmar sjö mínútur voru eftir og Orri Freyr Þorkelsson kom Íslandi yfir stuttu síðar. Lokamínúturnar voru gríðarlega spennandi en það kom í hlut Króata að skora síðasta mark leiksins, og unnu leikinn að lokum 23-22.

Íslandi nægir einn sigur til viðbótar að því gefnu að Danir vinni alla sína leiki sem eftir eru, gegn Hollendingum og Frökkum. En tapi Danir fyrir Frökkum þarf Ísland að vinna Svarfellinga í lokaleik.